Annasöm helgi á Konsulentvägen

Helgina 22. - 24. ágúst var smíðað, saumað og slegið, reytt, rakað og bakað!

Meðan foreldrarnir slógu gras og tíndu epli á laugardagsmorgni útbjuggu börnin hádegismat inni! Þeim þykir fátt skemmtilegra en samsetningarnar á hlaðborðinu vilja gjarnan verða dálítið undarlegar þegar þau fá að ráða!

Okkur reyndist afskaplega erfitt að þurfa aftur að fara á fætur um sjöleytið núna þegar skólinn er byrjaður. Einn morguninn í síðastliðinni viku þar sem við gengum geispandi í skólann lofaði ég börnunum að baka vöfflur um helgina, svona sem smá gulrót til að teyma okkur áfram þessa þreyttu morgna. Vöfflubakstur er mjög vinsæll hér á bæ, sérstaklega þar sem mér leiðist hann svo hrikalega og veiti börnunum því fremur sjaldan þennan munað. Eftir gríðarlega rigningartíð skein sólin loksins aftur um helgina og því þótti okkur tilvalið að borða vöfflurnar úti undir beru lofti.

Á laugardeginum fengum við líka þá snilldarhugmynd að byggja kofa (sem kallast koja á sænsku) uppi í vetrareplatrénu. Einar var með það sama sendur í Bauhaus til að kaupa efnivið og á sunnudeginum hófust smíðarnar. Hér er vandasamasti hluti verksins að baki (að festa bjálka og stoðir á rétta staði) og byrjað að leggja fjalagólfið. María fylgist áhugasöm með pabba sínum að störfum.

Kojan var vígð með heimagerðu eplasafti og börnin voru alsæl! Það var að vísu fyrir lítið tréhús í garðinum en þar sem það er byggt í barrtré (sem er eiginlega ekkert nema stofn og svo mjóar greinar út frá honum) fannst okkur þörf á aðeins veglegra húsi á betri stað í garðinum. Nú eiga þau sem sagt tvö og geta valið um að hvort sitt húsið, eða þá að hafa annað heimili og hitt vinnustað ... möguleikarnir eru endalausir!

Héðan hafa þau gott útsýni yfir allt sem framfer á nýju stéttinni sem er beint fyrir neðan. Fyrst um sinn ætlum við að hafa kaðalstiga upp í húsið sem þá má draga upp í snarhasti ef óboðnir gestir nálgast.

Sætu skólabörnin í sæta húsinu sínu. (Ég geri mér grein fyrir því að einn lítill pallur getur varla kallast hús en þar sem greinarnar og laufkrónan mynda eins konar veggi og þak er stemmningin svo sannarlega eins og maður sé inni í húsi.)

Meðan Einar smíðaði úti í sólinni vorum við María inni að sýsla við okkar. Stúlkan var orðin þrælkvefuð og heimilislæknirinn ráðlagði henni að halda sig inni við og þá vantaði hana auðvitað einhverja dægradvöl. Henni datt í hug að gera dúkku og með smá samvinnu bjuggum við mæðgurnar til hana Önnu Lísu. María teiknaði snið að búknum á blað, ég dró það upp á efnið, klippti, saumaði og fyllti svo dúkkuna. María valdi síðan garn í hárið úr afgangasafninu mínu og ég saumaði það á kollinn. María málaði augun með taulitum, ég klippti út kinnar úr filti sem hún valdi úr föndurkassanum sínum og límdi og saumaði þær á. María teiknaði munninn með lit sem dofnar og hverfur á nokkrum dögum og ég saumaði fáein spor ofan í hann. Svo saumaði ég að lokum þennan litla kjól. Við erum báðar alsælar með afraksturinn og ég get fullyrt að þetta er það allra skemmtilegasta föndur sem ég hef gert! Stundum er það óundirbúna það langskemmtilegasta!

Nú er Anna Lísa meira að segja búin að eignast heklaða vettlinga fyrir veturinn og ég þar sem systkinin eru bæði heima lasin er ég búin að lofa Maríu að hekla húfu og kannski trefil í stíl í dag. Það sem ég er allra ánægðust með er að dúkkan líkist, þrátt fyrir öll mín inngrip, öllum stelputeikningum Maríu, það er eiginlega bara eins og ein svoleiðis hafi umbreyst á þrívítt form ... eða bara lifnað við!

    

Meðan við mæðgurnar lögðum lokahönd á Önnu Lísu lagði Einar lokahönd á trékofann. Það er ekkert slor handbragðið hjá honum drengnum!

Anna Lísa fékk svo að sjálfsögðu kynnisferð í tréhúsið!

Ég fékk meira að segja að prófa líka! Það sem mig dreymdi um að eiga svona hús þegar ég var lítil! Og þetta er sannkallað draumahús! Laufkrónan skýlir manni fyrir veðri og vindum og það er nógu hátt uppi til að manni líði svolítið eins og maður sé einn í heiminum. Og best af öllu er auðvitað maður þarf ekki annað en að standa upp og teygja sig aðeins ef mann langar í epli! Ég er ekki frá því að ég hafi aftur orðið sjö ára í svona tíu mínútur og var hálfpartinn farin að plana gistingu í tréhúsinu þegar það rifjaðist upp fyrir mér að ég er víst þrjátíuogtveggja. Eitt er þó víst, ég mun alveg pottþétt stelast til að príla þangað upp af og til og lesa nokkrar síður í góðri bók meðan vindurinn rjátlar við laufin allt í kring!