Amma Kata kemur í heimsókn

Dagana 7. - 12. júlí var amma Kata í heimsókn hjá okkur eftir að hafa eytt vikunni á undan við skógarhögg í Noregi! Þar sem aðalljósmyndari síðunnar var að skrifa grein þessa sömu daga voru færri myndir teknar en ella en hér koma nokkrar frá skemmtilegum dögum í nágrenni Uppsala og Stokkhólmi.

Eins og svo oft áður þegar gesti ber að garði héldum við á herragarðinn í Hammarskog. Ég hætti seint að dást að útsýninu þar! Herragarðurinn sjálfur var hins vegar lokaður vegna sumarleyfa og því urðum við að sætta okkur við að rölta bara aðeins um flatirnar og njóta umhverfisins.

Blóm, flugur og engi í bakgrunni.

Hugi naut þess að hlaupa aðeins um og príla á klettum.

María var auðvitað hress og kát og stillti sér upp fyrir framan fallegt blómabeð sem því miður myndaðist ekkert sérstaklega vel!

María gefur lesendum síðunnar sýnishorn af grínsvip þeirra systkinanna!

Stór og sæt sumarstúlka!

Hugi á afskaplega erfitt með að ganga eðlilega, hann þarf helst alltaf að vera á hálfgerðu flugi eða stökki. Hér er hann í miðjum loftköstum.

Dyrnar að jarðhýsinu rannsakaðar eina ferðina enn.

Stór og sætur sumarstrákur!

Hólamæðginin taka Hammarskog út.

Eftir fýluferðina í Hammarskog héldum við að Ulva kvarn og fengum okkur hádegismat á kaffihúsinu þar. Ulva kvarn er skemmtilegt svæði sem stendur við gamla myllu og þar eru auk kaffihússins nokkrar litlar verslanir sem selja handverksmuni og antík. Í næsta nágrenni er svo jarðaberjaakur þar sem öllum er frjálst að tína ber að vild og borga svo eftir kílóverði. Við Konsulentarnir erum mjög spennt að kíkja þangað í sumarfríinu!

Andapar við ánna.

Einar valhoppaði eins og smástelpa eftir grasflötunum við gríðarlegan fögnuð barnanna sem höfðu sjaldan séð nokkuð eins fyndið!

Regndropar.

Um þessar mundir er mjög vinsælt að taka svona hoppmyndir þar sem helst þarf að smella af á því augnabliki þar sem börnin eru í lausu lofti!

  

Þessar eru teknar í röð og svolítið skondnar. Takið eftir stöðu Huga á báðum myndum!

Við hjónaleysin leituðum skjóls fyrir rigningunni undir trjánum.

Daginn eftir héldum við til Stokkhólms til að heimsækja Skansen. Þar sem strætóbílstjórar voru í verkfalli var ekki um annað að ræða en að taka punt-sporvagninn út á Djurgården. Huga fannst það ekki leiðinlegt!

Amma Kata og María skemmtu sér líka vel í þessum fallega gamla sporvagni. Reyndar hafði Stokkhólmi borist sporvagns-liðsstykur frá Gautaborg vegna strætóverkfallsins. Gautaborg er nefnilega eina borgin í Svíþjóð sem notast við sporvagna því í Stokkhólmi er bara þetta eina spor frá Norrmalmstorg út á Djurgården og það er sem sagt aðallega upp á punt. Það gengur enginn tunnelbani þangað út svo hingað til hefur besti ferðamátinn verið strætisvagn númer 47. Í verkfallinu var gamli sporvagninn því yfirfullur og nokkrir nútímabræður hans komu því að sunnan til að létta á álaginu.

María og Hugi gæða sér á nýbökuðum bullum fyrir utan verslun járnkaupmannsins á Skansen.

Þetta er í fyrsta sinn sem við erum á Skansen um hásumar og því í fyrsta sinn sem okkur gefst tækifæri til að skoða kolonistugurnar. Þessi er frá fimmta áratugnum, ógnarsæt og krúttleg!

Einar dáðist þó mest að matjurtargarðinum við stugurnar og skildi ekkert í því hvers vegna hans kartöflugrös voru ekki jafnflott!

Hugi hvíldi lúin bein á tröppunum og lék sér með smásteina meðan amma Kata skoðaði stuguna. Hún þekkir nú líf í litlum sumarbústað vel af eigin raun en hennar er nú sem betur fer þónokkuð stærri en þessi!

Er þetta riddaraspori eða eitthvað annað?

Léttskýjaður himinn yfir Moragården.

María og amma rannsaka Moragården.

Maður getur nú alveg sent sms þótt maður sé að leika kúasmala frá síðustu öld!

Fjölskyldan fylgist með selunum á kafsundi. Mér líður alltaf eins og ég sé stödd í fjöruborðinu á Saltkráku þegar ég heimsæki selina á Skansen.

Sæta-María en því miður enginn selur í baksýn!

Bangsarnir voru óvenju líflegir þennan eftirmiðdag, tóku meira að segja á sprett fyrir okkur og allt. En því miður voru litlu húnarnir sem fæddust í vor að kúra sig einhvers staðar fjarri æstum aðdáendaskaranum.

Birnirnir voru einstaklega áhugasamir um þennan hola trjábút og kröfluðu inn í hann með trýni og loppum. Þeir voru líka mjög áhugasamir um að borða kúk sem var voða lítið krúttlegt!

Úlfur, úlfur ...

Ullarleistar til þerris fyrir utan Finngården.

Þrátt fyrir hlaupandi bangsa og kafsyndandi seli voru það páfuglarnir sem voru stjörnur þessarar Skansenferðar!

Eins og vanalega spígssporuðu páfuglarnir um svæðið og amma Kata varð heldur betur hrifin af þeim en óskaði þess að þeir reistu fyrir hana stélið. Við sögðum henni að það væri útilokað, við hefðum margoft hitt páfugla á Skansen en þeir hefðu aldrei flíkað þessu stéli sínu neitt sérstaklega heldur bara dregið það eftir götunni.

En skyndilega þar sem við sátum og borðuðum ís og drukkum kaffi voru komnir tveir páfuglar alveg upp að okkur og virtust berjast um athygli fólksins sem safnaðist í kringum þá. Þeir görguðu eitthvað til skiptis og voru komnir í mikinn ham þegar ...

... annar reisti skyndilega stélið! Mannsöfnuðurinn kættist mjög og páfuglinn naut athyglinnar greinilega í botn!

Hann lét sig meira að segja ekki muna um að vippa stélinu í viðhafnarstöðu tvisvar svona til að það væri alveg öruggt að við sæjum að hann væri aðalmaðurinn á svæðinu en ekki hinn páfuglinn sem reyndar gargaði allt hvað hann gat! (Væri þessi mynd ekki ótrúlega fín ef ekki væri fyrir þenna hálfa íþróttaskó þarna fram undan vængnum?!)

Eftir páfuglasýninguna bliknuðu önnur skemmtiatriði á Skansen í samanburði og því ekki um annað að ræða en að klára ísinn bara í rólegheitum og rifja upp dýrðina einn með sjálfum sér!

Á Lill-Skansen var líf og fjör eins og vanalega. Þessa litlu kanínuunga mátti taka með sér heim ef manni tókst að sannfæra dýrahirðina um að maður væri upprennandi kanínuforeldri! Okkur tókst að standast freistinguna. Erfiðara þótti mér þó að standast tvær litlar kettlingasystur sem léku sér í fullu fjöri ... en það tókst þó!

Duddutré á Lill-Skansen!

Þessi kepptist alveg við að leika grísinn í Emil í Kattholti!

Hugi vildi taka í framfótinn á kiðlingnum og segja „Go dag, go dag“.

Maríu og kiðlingnum kom líka vel saman.

Belgísk risakanína!

Hugi á brúsapalli við Skånegården.

Og systkinin að skoða garðinn við Skånegården, Hugi í fýlu, María reynir að létta á honum brúnina!

Í gróðurhúsinu við Skånegården var þessi glæsilega pelargóníusýning sem því miður var læst þegar okkur bar að. Ég hef nú sjálf aldrei verið hrifin af pelargóníum en þetta blóm er mjög elskað og dáð hér í Svíþjóð og til í hinum ýmsu afbrigðum. Hún Þóra mamma hennar Stínu segir að það sé vegna þess að fólk trúi því að þær fæli flugur frá og ég kaupi þá skýringu alveg þar sem mér finnst voðalega vond lykt af pelargóníum og þær fæla mig eiginlega frá líka! En eftir tvö ár í Svíþjóð getur mér samt ekki þótt annað en pínulítið vænt um pelargóníur!

Og þar með lýkur þessu litla albúmi frá heimsókn ömmu Kötu - takk fyrir komuna!