Allt sem gerðist í október

Sveppaferð í skóginn, alls konar heimastúss og skemmtilegir gestir!

Bláklædd börn á leiðinni í sveppaleit í skóginum. Ég vil nú taka það fram að þótt ég sé mikið fyrir litasétteringar og að hafa allt í stíl þá var þetta bara tilviljun!

Þetta var 1. október og enn allt frekar grænt í garðinum.

         

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem María og Hugi eru dregin í sveppaleitarferð svo þau eru löngu búin að læra að slíkar ferðir snúast aðallega um foreldra sem rýna í sveppabækur, skipa hvort öðru fram og til baka og þusa yfir ógreiðfærum skógarbotninum - en eiginlega ekkert um sveppi! Merkilegt að foreldrarnir sjálfir séu ekki enn búin að ná þessu!

Einu kantarellurnar sem við sjáum eru þær sem eru á myndum í bókinni! María slær hlutunum bara upp í kæruleysi!

Baldri Tuma fannst þetta mjög skemmtileg ferð og var alveg sama þótt sveppirnir væru víðsfjarri!

Mig langar að vera fyndinn eins og María!

Stundum þegar við Einar tökum hefðbundar hjónamyndir verður útkoman svona!

En þá er bara að stilla aðdráttarlinsuna og gera aðra tilraun!

         

Við fundum alla vega einn svepp!

Þegar við vorum komin í bílinn eftir fýluferð í skóginn uppgötvaðist að bæði karfan sem við höfðum ætlað að fylla með sveppum (en endaði sem höfuðfat á börnin) hafði gleymst og svo hafði ég týnt lokinu framan af linsunni á myndavélinni. Við Einar héldum því aftur inn í skóginn og skildum Baldur Tuma eftir við stjórnvölinn. Hvort tveggja fannst og í marga daga á eftir gat ég hreykt sjálfri mér af hæfni minni við að rekja skref mín aftur á bak í tíma og rúmi og reikna út á hvaða 10 cm bletti líklegast væri að linsulokið fyndist - það var nefnilega einmitt þar!

Þegar heim var komið notuðu börnin tækifærið og príluðu svolítið í eplatrénu.

Unglingarnir í skóginum. Ja, þau eru að vísu eiginlega bara börn og þetta er bara eitt tré en það hefur ekki verið skrifað neitt ljóð um börnin í trénu.

María fann þetta flotta lauf á leið heim úr skólanum. Við vitum ekki alveg hvort hann er glaður eða ógnvekjandi!

Eftir að Baldur Tumi byrjaði á leikskólanum er aðalmálið að fá að smyrja brauðið sjálfur. Á leikskólanum fá þau nefnilega smá smjörklípu á smjörhníf og mega breiða úr henni sjálf ef þau vilja. Baldur Tumi vill ganga aðeins lengra í þessu hérna heima og gera allt sjálfur - oft með óæskilegum afleiðingum þar sem smjörlagið er þykkara en brauðsneiðin!

Það sprakk hjá okkkur ljósapera Maríu til heiðurs! Ég hef alla vega aldrei áður séð svona M munstur í sprunginni peru!

Við eyddum september og október í að mála stofuveggina og arininn og lakka alla gólflista, loftlista, gluggakarma, dyrakarma og bæði hurðina inn í sjónvarpsherbergi og þá út á pall. Að því loknu var loksins komið að því að búa til fínan myndavegg fyrir enda stofunnar. Ég er sko búin að vera að safna myndum í örugglega heilt ár (sumar hef ég átt enn lengur) til að setja á þennan vegg og var því ofurglöð að geta loksins farið að hrinda þessu í framkvæmd. Hér er ég búin að raða öllum myndunum upp, sumum í ramma öðrum enn óinnrömmuðum. Afraksturinn fáið þið að sjá síðar en ég verð að játa að ég er pínu svekkt þegar ég horfa á þessa mynd því mér finnst þetta eiginlega fínna svona allt í einni kös en eftir að allt er komið upp!

Þann 21. október áttum við von á góðum gestum í hús. Við Baldur Tumi bökuðum köku um morguninn til að geta tekið á móti þeim af myndarskap.

Við ákváðum að bjóða upp á sítrónuköku og nutum þess að sleikja skálina þegar kakan var komin inn í ofn! Uppskriftina finnið þið hér!

Daginn eftir var heldur betur fjör í húsinu! Eva og Freyja komnar frá London og öll börnin fjögur búin að safnast saman uppi í rúmi hjá Maríu!

Við Eva vorum hins vegar bara rólegar með tebollana okkar! (Tjah, reyndar skal ég ekkert segja um það hvort Eva hefur tekið því með ró að vera með þessa Grýlu gínandi svona yfir sér!)

Þegar margir eru í húsinu eru ekki alltaf allir sammála um hvað eigi að horfa á í sjónvarpinu og þá er nú ágætt að eiga loksins tölvu sem er hægt að horfa á myndefni í án þess að viftan hljómi eins og vörubíll og það gneisti úr diskadrifinu!

Við áttum einstaklega ljúfa og rólega daga með mæðgunum frá London, lásum bækur, spjölluðum, fórum í göngutúra um Vänge og púsluðum við eldhúsborðið. Að vísu skruppum við Eva líka með stóru stelpurnar okkar til Stokkhólms og fórum á Junibacken og tókum svo ferjuna yfir í Gamla Stan og röltum þar um og fórum út að borða um kvöldið en því miður fékk myndavélin ekki að fara með í þá góðu ferð.

Kjúklingashawarma við borðstofuborðið (og veggirnir enn berir eftir málningavinnuna). Það er greinilega komið að því aftur að fara að festa flassið á myndavélina enda orðið almyrkvað um klukkan fjögur. Ég upplifi bara svona smábarnaþrjósku gegn því, mér finnst flassið svoooo leiðinlegt!

Lestrarstund í sófanum. Evu datt í hug að lesa Einar Áskel fyrir Baldur Tuma og síðan hefur ekki verið aftur snúið og nú er það eitt alvinsælasta lesefnið hér á bæ!

Kvöldið áður en mæðgurnar héldu aftur heim stóðu Einar og Freyja fyrir smá tónleikum í stofunni. Einar sýndi Freyju nefnilega hvernig ætti að spila Góða mamma á gítarinn og hún var ekki lengi að ná því! Á það svo sem ekki langt að sækja þar sem mamma hennar er mikill gítarsnillingur! Daginn eftir skutluðum við þeim aftur á flugvöllin og vonum að ekki líði allt of langt þangað til við sjáumst næst - og þá helst í London! Takk fyrir komuna elsku vinkonur og takk fyrir lánið á þeim elsku Gunni og Embla!