Allt að gerast í apríl

Lesið, leikið, dansað, sungið ... og orðið 12!

Enginn á heimilinu fær eins mikinn póst og Baldur Tumi þessa dagana. Alla vega ekki nærri því eins skemmtilegan. Það er amma hans Imba sem hefur verið iðin við að senda honum glaðning og einn daginn kom þessi skemmtilega bók með uppáhaldinu Hello Kitty. Baldur Tumi elskar bókina og tók hana með sér í miðdegislúrinn daginn sem hún kom með ofangreindum afleiðingum.

Apríl var ansi fúll mánuður hér í Uppsölum veðurfarslega séð. Einn og einn dagur var þó góður og hér erum við Baldur Tumi að leika í garðinum á einum slíkum.

Hárið hans er nú vanalega ekki svona lokkað eins og hér en þarna hafði hann verið að leika úti á leikskólanum með þykka húfu og svitnað hressilega svo hárið stóð allt út í loftið þegar heim var komið.

     

Á harðahlaupum sería I.

     

Á harðahlaupum sería II.

Baldur Tumi elskar steina - vægt til orða tekið! Hann eyðir ómældum tíma í að tína steina af stígnum upp að húsinu og dýpsta ástarjátningin sem hann á til er að gefa stein sem hann hefur valið af kostgæfni. Hann fer með hvern og einn eins og ómetanlegan dýrgrip og þvælist með þá út um allt í lófum og vösum. Er nokkuð fegurra en steinn í litlum lófa?

Annað sem Baldur Tumi elskar eru bílar og gröfur! Þessi rauða grafa er mjög vinsæl, ekki síst þar sem hægt er að sameina hana og steinaáhugann með því að láta hana moka upp möl!

 

Hér er lítið vídeóbrot þar sem við Baldur Tumi spjöllum saman úti í góða veðrinu (þið reynið bara að leiða hjá ykkur þessa hræðilegu strumparödd í mér!). Svona aðeins til að útskýra þá talar hann um „alla bordet“ þarna einhvers staðar, það er tekið upp úr þulunni sem þau fara með við matartímann á leikskólanum (Alla händer under bordet, nu skal maten smaka) en ég hef ekki hugmynd um hvað hann átti við með þessu í samhenginu þarna. Það heyrist svo svolítið illa það sem hann segir þarna undir lokin þegar hann snýr sér frá myndavélinni en það er sem sagt „Ég hafa svona kósí“. Þetta er mikill stemmningsmaður!

Ég var að hugsa um að skrifa „Blóm handa mömmu“ undir þessa mynd en þá hefði ég verið að ljúga. Staðreyndin er að ég tíndi þetta blóm, tróð því í höndina á honum, hélt henni kjurri og tók mynd! Mín kenning er að 99% af myndum af börnum að gera eitthvað ótrúlega sætt eins og upp úr barnabók frá 1940 séu falsaðar með svipuðum hætti! Myndin er samt sæt!

23. apríl 2012, tólfti afmælisdagur Maríu Einarsdóttur runninn upp!

Fjölskyldan syfjuleg í bítið.

Afmælisbarnið hresstist þó fljótt þegar pakkarnir voru opnaðir einn á eftir öðrum. Hér voru ýmsar sápur og krem nýkomnar úr umbúðum.

  

Upp úr öðrum pakka kom Glee tónleikadiskur sem hafði verið ofarlega á óskalista.

  

Og svo var það aðalpakkinn sem vakti mikla lukku ...

... í honum leyndist sími! Loksins!!!

Okkur Einari fannst síminn sem við völdum mjög Maríulegur, fjólublár og krúttlegur.

Seinna um daginn var afmælisbarnið jafnvel í enn meira stuði en áður, komin í dressið og búin að setja á sig úrið sem hún fékk líka í afmælisgjöf og síminn loksins hlaðinn!

         

Í miðri myndatöku hringdi nýi síminn óvænt í fyrsta sinn ... Halló?

         

Í símanum var Elli frændi sem var greinilega voðalega fyndinn!

Hugi tók þessu öllu með ró enda afmælisdagar old news fyrir honum sem fangaði sínum þremur mánuðum fyrr. Ekki að hann eigi í nokkrum erfiðleikum með að fagna afmælisdögum annarra, hann tekur þessu bara með ró eins og öllu öðru!

Afmælisbarnið óskaði sér lasagne í kvöldmatinn eins og svo oft áður.

Og í eftirrétt valdi hún súkkulaði- og döðlukökuna hennar Svanhildar sem henni finnst besta kaka í heimi!

Bræður moka.

Baldur Tumi getur verið algjör frekja þegar Hugi er annars vegar, skipar honum hingað og þangað, skammast og rífst. En Hugi er alltaf jafngóður við litla bróður sinn, hlýðir honum möglunarlaust (eiginlega allt of oft) og nennir endalaust að leika við hann.

27. apríl fór ég og var viðstödd hæfileikakeppnina í Vänge skola, Vängestjärnor. Bæði María og Hugi tóku þátt svo ég mátti auðvitað ekki missa af þessu! Hér er þéttsetinn salur í leikfimihúsinu. Því miður á ég engar myndir frá atriðunum þeirra þar sem ég einbeitti mér að því að taka þau upp á vídeó. Ég kann hins vegar ekki við að leggja þau út á opinn vef þar sem það eru jú fleiri börn en mín eigin sem koma fram þar (og kannski ekki allir jafnhrifnir af því að hver sem er geti séð) en sendi vinum og vandamönnum slóðina ef þess er óskað! Sendið mér bara tölvupóst eða óskið eftir hlekk í kommentakerfinu hér!

Bekkjarsystur Huga og félaga sungu rapplag við eigin texta og á meðan þær fluttu sitt atriði stilltu strákarnir sér við sviðið til að sýna þeim stuðning. Mér fannst þetta svo dúlló!

Stuðningsveggurinn!

Meðan stigin voru talin biðu keppndir æsispenntir. Þessir fjórir héldu þó kúlinu. Frá vinstri Jesper, Hugi, Simon og Olof.

Flottir strákar!

Íslensku stelpurnar, Tuva, Lilja og María voru líka kátar.

Og svo voru úrslitin tilkynnt og haldiði ekki bara að strákarnir okkar hafi lent í fjórða sæti! Hér ganga þeir glaðir og reifir af sviðinu eftir að hafa tekið á móti fagnaðarlátum. Og sjálf fór ég skömmu síðar heim með kökkinn í hálsinum yfir hvað það væru til frábærir og hæfileikaríkir krakkar og kennarar í heiminum og yfir hvað ég væri stolt af börnunum mínum sem þora að standa á sviði og dansa, syngja og njóta þess að taka þátt sama hver úrslitin verða!

Hér á Konsulentvägen er vinsælst að byggja lestarteina á kyrrlátum helgarmorgnum. Skemmtilegast er að nota allar brýrnar, skiptisporin og hvern einasta bút af teinum sem til er en það er eiginlega bara Einar sem er nógu laginn til að ná því.

Feðgarnir keyra lestar.

Ég vona að lesendur séu ekki komnir með nóg af krúttmyndum af Baldri Tuma þrátt fyrir að þegar sé komin ein löng sería með honum að leika úti í þessu albúmi! Hér kemur nefnilega önnur!

         

Syngjandi sveifla í rólunni.

Í öllum myndaseríum sem ég tek af Baldri Tuma er ein svona mynd. Þær verða til þegar mér finnst hann allt of óduglegur að horfa í myndavélina og byrja skrækróma að endurtaka „Hvar er mamma? Hvar er myndavélin?“!

Alveg að verða þriggja ára, löngu hættur með bleiu og farinn að tala ótrúlega mikið!

Baldur Tumi er ekki seinn að ná í sína myndavél þegar það er einhver myndatökustemmning!

Þessi grænu augu fara alveg með mig.

Reynið að horfa bara á fallega barnið en ekki draslhauginn þarna fyrir aftan!

Ætli það sé til krúttlegri hnakki?

Brjálað að gera!

Vorstemmning á stéttinni.

30. apríl, Valborgmässoafton, og María og Baldur Tumi hlaupa eftir Konsulentvägen á brennuna í Vänge.

Ordförande mundar bensínbrúsann.

Og svo logaði loks glatt í öllu.

  

Baldur Tumi fylgdist með, öruggur í fangi pabba, en María og Hugi skoppuðu um allt, spjölluðu við vini, hlupu í gegnum reykinn og voru almennt í stuði.