Allskonar aprílmyndir og afmæli

Nokkrar myndir af venjulegu lífi á Konsulentvägen og stórafmæli heimsætunnar.

Tveir af amaryllisunum mínum stóðu í blóma í byrjun apríl, svo óendanlega fagrir og fullkomnir.

Ég held hreinlega að þetta sé fallegasta tegundin sem ég á og eru þær samt allnokkrar! Því miður blómstraði engin önnur þetta vorið.

Við tókum fyrstu vordögunum fagnandi eftir langan vetur og feðgarnir drifu sig út á pall að olíubera garðhúsgögnin. Ekki veitti af þar sem þau voru jú búin að standa úti frá síðasta sumri, eins og frægt er orðið!

Heimsins sætasti strákur skoðar umhverfið úti á palli, spennandi og dálítið ógnvænlegt í senn.

Þrátt fyrir vorverkin var enn frekar kalt svo skinnhúfan frá ömmu Kötu fékk að verma litla kollinn enn um sinn.

Sólargretta ... sú sætasta sem sést hefur!

         

Baldur Tumi hefur þroskaðan matarsmekk. Hann fúlsar við bragðlausum smábarnamat en sést hér naga púrrulauk af mikilli áfergju! Sódavatn með miklu gosi finnst honum stórkostlegur drykkur og hann vílar ekkert fyrir sér að bíta í sítrónur!

23. apríl 2010 - María 10 ára!!! Það steingleymdist að taka fram myndavélina í morgunkaffinu en afmælisbarnið var fáanlegt til að láta mynda sig með nokkrar afmælisgjafanna áður en hún stökk af stað í skólann. Hér er hún með Hello Kitty hlaupahjól frá ömmu Imbu.

         

Og hér með einhvers konar nútímaútgáfu af dúkkulísum og krúttlegan geislaspilara frá okkur foreldrunum.

Hugi vildi endilega láta mynda sig með Eurovision geisladiskinn sem amma Kata hafði sent honum svo hann yrði ekki útundan. Var góðfúslega orðið við þeirri beiðni!

Portrett af stóru stúlkunni minni í tilefni dagsins!

Seinnipart afmælisdagsins bauð María bekkjarsystrum sínum heim í pizzupartý. Hér sést hún innst fyrir miðri mynd að opna fínu gjafirnar sínar í góðra vina hópi.

10 ára er svolítið skondinn aldur, sérstaklega kannski hjá stelpum. Meðal afmælisgjafanna voru bæði krúsílegar Pet Shop fígúrur og bodylotion og naglalökk!

Kát og glöð afmælisstelpa með vinkonum sínum.

    

Meðan afmælisbarnið opnaði pakka í stofunni vorum við Einar á milljón við pizzubakstur í eldhúsinu. Baldur Tumi nagaði ananaskjarna og var sáttur við sitt. Stelpurnar voru annars voða skotnar í honum og sögðu að íslensk börn væru „svo sæt af því þau eru með svo miklar bollukinnar“! Ég veit nú ekki alveg hvort þessi kenning stenst en vissulega hafa öll mín börn verið með miklar bollukinnar og öll afar sæt!

Skvísurnar snæddu svo pizzurnar með bestu lyst og léku sér í góða stund á eftir. María var alsæl með daginn sinn og vildi helst fara að skipuleggja 11 ára afmælisveisluna strax sama kvöld!