Alls konar apríl
                       
... kinnalitur, kúkkú og fleira

Við byrjum aprílmyndirnar á smávegis förðunarslysi. Ég sat einn morguninn í tölvunni og Baldur Tumi var að skottast í kringum mig. Ég varð vör við að hann fór inn í sturtuklefann og lokaði á eftir sér en var of sein að fatta hvað hann var þar grunsamlega lengi og hvað það var undarlega hljótt á meðan. Ég rankaði ekki við mér fyrr en ég heyrði klefann opnast og í kjölfarið mjög gæjalegt „Hæ!“ Og þarna stóð hann, búinn að gera sig svona ljómandi fínan með kinnalit mömmu sinnar!

Hann var heldur betur ánægður með sig - alla vega þangað til þurfti að setja hann í bað og þvo kinnalitinn með sápu! Hann virðist því miður hafa bitið í sig þá ranghugmynd að hvers kyns krem, sápur og snyrtivörur eigi fyrst og fremst að fara í hárið og þá dugar ekki bara vatn til að skola af! Mér finnst hann annars voðalega líkur Einari á þessum myndum, held að það sé rauðleita skeggrótin sem dregur fram svipinn!

Fyrsta maríuhæna vorsins fannst þann 9. apríl.

María var ánægð með nöfnuna (sem sést hér um það bil að taka á loft).

Baldri Tuma finnst mjög smart að leggjast á magann og helst setja hendur undir kinnar líka þegar hann ætlar að fylgjast með einhverju.

Hér var það stóri bróðir í fótbolta sem fangaði athygli hans. Eins og sjá má var allur snjórinn loks farinn þegar þarna var komið sögu, 14. apríl, en allar greinar enn berar og fremur kaldranalegt um að litast.

En góða veðrið kom þarna alveg um miðjan apríl og við tóku nokkrir dásamlegir dagar með sól og mildum sumargolum. María og Baldur Tumi kíktu bæði inn um glugga ...

... og út um þá!

Hugi og Olof, besti vinur hans, að leik í garðinum. Það er annars rétt að greina frá þeim stórtíðindum hér að Hugi gisti í fyrsta sinn hjá vini einmitt nóttina áður en myndin var tekin, einmitt hjá téðum Olof. Þau María hafa að vísu gist saman hjá systkinunum í næsta húsi en það er nú ekki alveg fullgild vinagisting ef stórasystir er með!

Enn einn blíðviðrisdagurinn og Baldur Tumi og María skoða túlípanana sem geysast upp úr moldinni.

Þessar litlu bláklukkur (sem eru að vísu ekki bláar) setti ég niður í fyrra og voru fyrsta til að blómstra í ár fyrir utan krókusana.

Baldur Tumi var annars óborganlega fyndinn eftir að hlýnaði í veðri því honum fannst ófært annað en að fara út í úlpu og með húfu. Það þurfti miklar fortölur til að fá hann ofan af því að vera alltaf í fullum herklæðum og um tíma þótti honum samt öruggast að fara út með annað hvort peysu eða húfu undir handleggnum. Svo druslaðist hann um með flíkana hvert sem hann fór og hvað sem hann gerði - til dæmis í sandkassann að moka!

Það er erfitt að moka þegar maður er einhentur!

Eftir útiveruna fékk Baldur Tumi súkkulaðikex við eldhúsborðið. Slíkt góðgæti er nú ekki á boðstólum hvern dag og var þessu framtaki því afar vel tekið og eins mörgum kexum troðið í munnin áður en kerlingunni dytti í hug að hætta við! Gott ef það var ekki einmitt í kringum þennan viðburð, alla vega um þetta leyti, að drengurinn lærði að segja súkkulaði, „kúkkú“!

         

Nú er „kúkkú“ að vísu notað yfir hvers kyns gotterí (hann er mjög ökonómískur í orðnotkun drengurinn!) og er eitt mest notaða orð Baldurs Tuma. Kannski skiljanlegt þegar maður sér kúkkú-gleðina á þessum myndum!

Síðasta dag aprílmánaðar er kveikt í maíbrennum um alla Svíþjóð. Brennurnar eru í tilefni af Valborgarmessunni sem er daginn eftir. Brennan hér í Vänge er bara í 200 metra fjarlægð frá okkur og við höfum svekkt okkur á því í mörg ár að við megum ekki setja garðúrganginn okkar á hana. Brennan er nefnilega í umsjá íbúasamtakanna í næstliggjandi götu og það má enginn annar safna í hana nema þau. Í ár fékk Einar að vísu undanþágu hjá formanninum (sem er þýsk og þver eldri kona í grænum jakka á myndinni). Við áttum nefnilega týpískt Konsulenta-móment þegar við ætluðum að fara með trjágreinar og annan úrgang í endurvinnsluna! Vorum búin að leigja kerru undir herlegheitin, hlaða öllu á hana og Einar kominn í Sorpu þegar hann uppgötvaði að þar var lokað og ekkert opið aftur fyrr en við áttum að vera búin að skila kerrunni. Það stefndi sem sagt allt í að við hefðum borgað 300 krónur fyrir leigu á kerru sem aðeins var notuð til að keyra trjágreinarnar í útsýnisbíltúr um borgina áður en þeim yrði skilað aftur heim í garð! Í örvæntingu sinni hljóp Einar að brennunni og fékk að lokum góðfúslegt leyfi til að henda greinunum okkar á hana gegn því að hjálpa til!

María og besta vinkonan Linnea. Eftir hlýindin um miðjan apríl var aftur orðið skítkalt og hávaðarok í ofan á lag. Það voru því krókloppnir Vängebúar sem yljuðu sér við eldinn.

Þarna er einmitt að kvikna í jólatrénu okkar!

Feðgarnir virða sjónarspilið fyrir sér.

Og Baldur Tumi gerir töfrabragð og lætur svartan reyk stíga upp úr fingrinum! Við bíðum eftir bréfinu frá Hogwarts!