Ágústmyndir

 

Við skelltum okkur í lautarferð með fjölskyldunni á Bergþórugötu laugardaginn 2. ágúst. Förinni var heitið í Heiðmörk en við enduðum við Hvaleyrarvatn þar sem enginn ferðalanganna rataði í Heiðmörk. Áttum þar yndislegan eftirmiðdag, borðuðum nesti og nutum bæði blíðunnar og glæsilegs útsýnis. Krílunum þremur fannst alveg frábært að vera svona aðeins úti í náttúrunni. Emil er greinilega skynsamur og hugar að sólarvörninni.

Þarna er Einar með Maríu og Huga niðri við vatnið að fleyta kerlingar.

Emil svalar þorstanum í hitanum, það var sko miklu magni af safa skolað niður í þessari ferð skal ég segja ykkur!!!

María með myndasvipinn!

Huga tókst að skíta sig ansi mikið út því hann hafði mestan áhuga á að krafsa í leirnum við vatnsborðið. Ölvir frændi fylgist með.

Hugi þáði veitingar af Evu og tók að sér að klára jarðarberin og bláberin sem hún kom með.

Hér er María að fljúga flugdrekanum sem hún fjárfesti í með pabba sínum fyrr um daginn.

Hugi fylgdist með flugdrekanum af áhuga. Við hlökkum til að fara að Hvaleyrarvatni aftur og erum ótrúlega glöð að hafa villst á þennan stað. Næst tökum við Jódísi og Hrapp með en við söknuðum þeirra óskaplega!

Við skelltum okkur í berjamó í blíðskaparveðri sunnudaginn 17. ágúst. Fórum á æskuslóðir Einars eða í Þorskafjörðinn sem er í svona fimmtán mínútna fjarlægð frá Hólum þar sem Einar ólst upp. Þar klöngruðumst við upp í hlíð, Bárugötufjölskyldan og amma á Bakkastöðum og tíndum ber af miklum móð. Huga fannst svona „blái“ alveg rosalega góð, settist bara niður og tíndi af lynginu og beint upp í munn.

María var öllu þróaðri í þessu og var með sína eigin dollu sem hún tíndi í ýmsar gerðir berja. Hún var alveg ótrúlega dugleg og hefur greinilega erft kappsemi móður sinnar hvað berjatínslu varðar!

Svo varð nú samt að taka sér pásur inn á milli og æfa kollhnísinn!

Svo var farið aftur að Hólum í sveitina hans afa. Þar er nú margt að sjá og sannkallað ævintýraland fyrir Maríu og Huga.

Nú er afi hættur með mjólkurkýrnar en þarna voru nokkrar kvígur sem krökkunum fannst gaman að skoða og nokkrir bolar inni í fjósi.

Það gekk afar illa að fá börnin til að líta í áttina til myndasmiðsins þegar „voffarnir“ voru líka í boði!!!

Hugi sofnaði nánast um leið og lagt var af stað...

...sömu sögu var reyndar að segja um systur hans nema hvað hún vaknaði nánast strax aftur og var því orðin úrvinda af þreytu þegar komið var heim.

Að kvöldi 21. ágúst drifum við okkur í að laga sultu úr bláberjunum sem við höfðum tínt nokkrum dögum áður í Þorskafirðinum. Börnin voru sofnuð og tóku ekki þátt í gleðinni en það var hins vegar rosa stuð hjá okkur hjónaleysunum. Hér er verið að skola berin og gera klárt.

Hér er verið að hræra. Samkvæmt leiðbeiningum á nú reyndar að hræra sem minnst í sultunni heldur bara leyfa henni að malla. En það er bara ekki hægt, það er svo allt of gaman að sulla í þessu svona skærbleiku og klístruðu!

Hér er Einar að sótthreinsa krukkurnar enda sultan í stóra pottinum alveg að verða tilbúin.

„Einar, heldur þú að fólk úti í bæ sé jafnklikkað og við að hafa gaman af myndum af bláberjasultu?!“ „ Ég veit það ekki Guðrún mín, en ég er mjög stoltur, bæði af sultunni og myndunum!“ Allir velkomnir í kaffi til okkar á næstunni! Boðið verður upp á kex með osti og bláberjasultu, pönnukökur með bláberjasultu, brauð með bláberjasultu, vöfflur með bláberjasultu, kökur með bláberjasultu......!!!

22. ágúst fór Hugi í fyrstu alvöru klippinguna sína. Mamma hans hafði reyndar einu sinni gert tilraun til að klippa mestu lufsurnar yfir eyrum og í hnakka með frekar lélegum árangri. Í þetta sinn var því farið á alvöru hárgreiðslustofu og líkaði Huga þetta umstang afar illa. Lét hann reiði sína bitna á bæði starfsfólki og viðskiptavinum stofunnar sem horfðu á hann vorkunnaraugum meðan kollurinn var bleyttur, greiddur og klipptur við dræmar undirtektir stjörnunnar. En afraksturinn var góður eins og sjá má! Nú er maður sko orðinn herralegur og enginn mun kalla þennan unga mann stelpu framar!!!

Á eftir svona þrekvirki er voða gott að fá beyglu með rjómaosti sem er algjörlega orðin uppáhaldsfæða Huga.

Hugi vaknaði fullsnemma af hádegislúrnum og var því ekki alveg úthvíldur þegar hann kom fram. Hann gerði sér því lítið fyrir, skreið úr mömmufangi, lagðist fyrir á þennan púða og steinsofnaði aftur.

Við skelltum okkur öll fjögur á róló eldsnemma á laugardagsmorgni! Höfum öll gott af að hamast svolítið fyrir hádegismatinn!!! María kíkir í gegnum rörið! Þessa dagana er alveg málið að drusla þessari „skólatösku“ með sér hvert sem hún fer. Hún er farin að hlakka þessi ósköp til að byrja í alvöru skóla. Margir af krökkunum á leikskóla eru að hætta til að byrja í skóla og svo er daman náttúrulega sjálf með stóra drauma um háskólanám þegar hún verður átta ára!!!

Hugi að fara að renna. Eins og þið kannski vitið er hann lítið fyrir að gera hlutina flókna. Rennibrautin kallst því bara „Vei“ í hans orðaforða!!!

Hér er María klifurköttur. Hún kemst sko alveg upp í topp!

Feðgarnir...

...mæðgurnar!

Hér er pylsusalinn í sjoppunni! Hann var reyndar sofandi þegar við komum þar að en okkur tókst að vekja hann! Þegar við báðum um pylsu með öllu vorum við spurð hvort við vildum sem sagt pylsu með simmeti, tómatsósu, brauði og bréfi!!! Maríu finnst nefninlega litla pappírsdulan sem maður fær utan um pylsuna alveg snar þáttur í pylsugerð!!! Allt kostar fimm hundruð krónur og það þýðir yfirleitt að maður fær bæði pysluna OG fimm hundruð krónur í kaupbæti!!!