Ágústdagbók 2010

 

 

Forsíða

Um okkur

Mín síða

Myndirnar okkar

Hafðu samband

Gestabókin okkar

 

11. ágúst 2010

Sólskin með kaffinu

Í morgun, þegar ég var enn á náttkjólnum að fletta gömlum tímaritum, rakst ég á uppskrift að sítrónuköku. Ég tók skyndiákvörðun um að prófa og hálftíma síðar var hún tilbúin! Þar sem þetta reyndist bæði ein besta og auðveldasta kaka sem ég hef um ævina gert datt mér í hug að færa ykkur uppskriftina:

Botn:

2,5 dl hveiti
0,5 dl sykur
0,5 tsk vanillusykur
150 g smjör

Hitið ofninn í 200°. Blandið öllu saman í matvinnsluvél og þrýstið deiginu svo í botninn á vel smurðu formi. Bakið í 12-15 mínútur á meðan fyllingin er gerð.

Fylling:

3 egg
2 dl sykur
0,5 dl hveiti
rifinn börkur af einni sítrónu
6 msk af nýkreistum sítrónusafa (ca. ein og hálf sítróna)

Þeytið egg og sykur vel, blandið hveitinu út í og þeytið saman við. Bætið sítrónuberki og sítrónusafa út í og hrærið. Hellið blöndunni yfir botninn þegar hann hefur forbakast og bakið í 10 mínútur til viðbótar. Kælið, skerið í bita og púðrið með flórsykri.

Eins og að borða sólskin!

 

7. ágúst 2010

Greinamerki

Ég fór að hugsa um það um daginn, af einhverjum óskiljanlegum ástæðum, hvaða greinamerki ég væri ef ég væri greinamerki. Meðan ég var að velta þessu fyrir mér áttaði ég mig á því hvað greinamerki eru ótrúlega hlaðin og merkingarrík tákn. Greinamerkið eitt og sér getur slegið nýjan tón í setningu og jafnvel snúið merkingu hennar alveg við ef því er að skipta. Alla vega, ég kallaði svo í Einar og bað hann um að velja sér greinamerki og í sameiningu völdum við svo greinamerki fyrir börnin. Niðurstaðan var eftirfarandi:

Ég: Þrípunktur

Einar: Tvípunktur

María: Punktur

Hugi: Spurningamerki

Baldur Tumi: Upphrópunarmerki (mögulega þrjú í röð!!!)

Skýrir þetta sig ekki alveg sjálft?

Ég get samt greinilega lagt þrípunktinn í mér aðeins til hliðar því ég er búin að setja inn tvö ný albúm og þar með ná í skottið á mér í myndbirtingum:

Sírenur og sumarsól

Sumargleðin

Hvaða greinarmerki eruð þið, góða fólk?

 

Forsíða      Um okkur      Mín síða      Myndirnar okkar      Hafðu samband      Gestabókin okkar