Ágústdagbók 2008 

 

 

Forsíða

Um okkur

Mín síða

Myndirnar okkar

Hafðu samband

Gestabókin okkar

 

25. ágúst 2008

Eins og sumarið er frábært finnst mér alltaf eins og allt falli í samt lag á haustin, eins og lífið komist aftur í sínar föstu og náttúrulegu skorður eftir skemmtilega sumarólgu. Og á haustin fyllist ég einhverjum nýjum krafti sem ég finn ekki fyrir á sumrin. Undanfarna helgi höfum við á Konsulentvägen til að mynda komið meiru í verk en allt sumarfríið samanlagt.

Ég er búin að:

- baka vöfflur
- slá garðinn (sem er um 1000 fermetrar)
- reyta arfann meðfram rúmlega hálfum stígnum og í beðunum framan við hús
- sauma samtals 9 smekki handa tveimur litlum herramönnum
- hekla hálfa jólagjöf
- sauma dúkku og dúkkukjól í samstarfi við Maríu og hekla dúkkuvettlinga

Einar er búinn að:

- tína epli
- búa til tvær krukkur af eplachutney
- búa til eplamús úr um það bil 5 kg af eplum
- reyta arfann meðfram tæplega hálfum stígnum og á bílastæðinu
- smíða kofa uppi í tré
- taka til í bílskúrnum til að rýma til fyrir fjórum rúmmetrum af viði sem við fáum afhentan seinni partinn í dag

María og Hugi eru búin að:

- hjálpa til við allt ofantalið
- vera ótrúlega mikil yndi
- næla sér í fyrsta haustkvefið

Hér eru fáeinar myndir:

Annasöm helgi

 

21. ágúst 2008

Draumastarfið

Ég er sífellt að endurnýja listann minn yfir draumastörfin. Akkúrat núna lítur topp þrjú listinn svona út:

Barnabókamyndskreytir - Ég er haldin einhverju barnabókalosta sem virðist ekki ætla að eldast af mér. Sérstaklega höfða fallega myndskreyttar barnabækur til mín og undanfarið hef ég áreiðanlega keypt mér eina barnabók á mánuði að meðaltali bara til að geta dáðst að myndunum og þannig horfið inn í einhvern drauma- og ævintýraheim. Best af öllu væri náttúrulega að geta bara teiknað allar þessar myndir sjálf. Þá gæti ég unað mér allan liðlangann daginn innan um lokkaprúð börn, íkorna, talandi úlfa og laufskrúðug tré ... og þyrfti ekki einu sinni að líta upp nema rétt til að laga mér kaffi.

Atvinnuprjónakona - Ég vildi að ég hefði næga þekkingu, hæfileika og atorkusemi til að hanna mínar eigin prjónauppskriftir sem ég myndi síðan gefa út í bók með glansandi blaðsíðum og undursamlega fallegum myndum af eplahúfum, Rauðhettupeysum, fyndnum böngsum og litlum, dúnmjúkum ungbarnaskóm!

Höfrungatemjari - Að hugsa sér að fá að vera vinur höfrungs! Ég held varla að neitt geti verið skemmtilegra en að svamla um í blautbúningi daginn út og inn, fá að knúsa höfrunga, synda á bakinu á þeim og láta þá kasta sér hátt upp í loft! Og fá svo stoltur að sýna fullt af fólki hvað þessir brosmildu en sleipu vinir manns hafa verið duglegir að læra ýmsar kúnstir - nei, það getur varla verið til mikið skemmtilegra starf!

P.s. Það síðast talda er auðvitað innblásið af ferð okkar fjölskyldunnar í dýragarðin Kolmården. Myndir úr henni má sjá hér:

Kolmården

 

19. ágúst 2008

Ofur-Hugi

Frá og með deginum í dag er Hugi skólastrákur! Í morgun klukkan 8:10 byrjaði hann í Förskoleklass A í Vänge skola!

Ég held að hann hafi leynt og ljóst verið að undirbúa sig undir þennan dag í allt sumar. Frá því leikskóladvölinni lauk fyrir um það bil átta vikum síðan hefur hann meðal annars lært að hjóla án hjálpardekkja, kafa og fara í sturtu, telja upp í fjögurhundruðogníu og lært á klukku! Hann hefur stækkað svo mikið andlega og líkamlega á þessum tíma að að við foreldrarnir erum steinilostin á hverjum degi.

Ekkert af þessu er þó skrýtið ef haft er í huga hvernig þessi litli drengur virðist hingað til hafa ímyndað sér skóladvölina. Um helgina kúrðum við saman upp í mömmurúmi fyrir háttinn og ræddum væntanlega skólagöngu. Ég spurði hann hvort hann væri nokkuð kvíðinn og eftir stuttar útskýringar á því hvað „kvíðinn“ þýddi svaraði hann: Sko mamma, ef kennarinn spyr „Hvað er átta plús níu?“ og allir krakkarnir rétta upp hönd og hrópa „Níutíu!“ ... sko þá rétti ég bara líka upp hönd og segi „níutíu“ eins og hinir krakkarnir! Nú er rétt að minna á að fyrstu vikur Maríu í sex ára bekk fóru í að negla það niður hvernig talið væri upp í fimm þannig að það er algjörlega útilokað að kennarinn muni fyrirvaralaust biðja nemendur að leggja saman átta og níu. En í allt sumar hefur aumingja Hugi greinilega verið að burðast einn með þessar stóru hugmyndir, ímyndað sér að eftir að hann byrji í skólanum geti hvenær sem er dunið á honum svínslega erfiðar spurningar sem hann veit ekki svarið við. Og ekki nóg með það heldur að hann muni verða sá eini í bekknum í þessari stöðu, sá eini sem ekki veit að að átta plús níu eru níutíu! En í staðinn fyrir að gefast upp hefur hann einn með sjálfum sér fundið lausnina, hann ætlar bara að rétta upp hönd af jafnmiklum ákafa og allir hinir og segja það sama og þau. Ég gat sem betur fer sannfært hann um að hann þyrfti engar áhyggjur að hafa af svona reikningdæmum í náinni framtíð og svo knúsaði ég hann eins og ég ætti lífið að leysa og þurrkaði sjálf nokkur tár meðan hann sá ekki til. Ég vissi ekki alveg hvort hjartað krumpaðist meira af því að heyra að hann hefði einn gengið með þessa þungu framtíðarsýn síðustu vikur án þess að nokkur hafi getað leiðrétt hann og hughreyst eða vegna þess hve ótrúlega stolt ég var að eiga svona jákvæðan og hugrakkan strák. Er það nema von að hann hafi í fljótheitum lært að hjóla, kafa og telja miðað við það sem hann hélt að biði hans í haust?

Þessi hugrakki og kjarkaði strákur setti undir sig hornin þegar skólabjallan hringdi klukkan 8:10 í morgun. Hann óð með nýju tígrisdýratöskuna á bakinu gegnum þvöguna af skólabörnum og foreldrum, var fyrstur inn, dreif sig úr skóm og hengdi upp peysuna, var fyrstur til að heilsa kennaranum með handabandi og finna sinn stað í skólastofunni. Þetta voru stór skref fyrir lítinn mann. Og það var engan bilbug á honum að finna þegar ég sótti hann í hádeginu að afloknum fyrsta skóladegi, hann var enn jafnglaður, jafnákveðinn í að standa sig ... en reyndar örgglega búinn að stækka um 10 sentimetra!

 

4. ágúst 2008

Ég var að átta mig á því að ég hef ekki skrifað neitt af viti á þessa síðu svo vikum, gott ef ekki mánuðum, skiptir. Þar sem þið liggið sjálfsagt öll áfengisdauð í Herjólfsdal með klóna af gítarnum hans Árna Johnsen í vasanum held ég að það sé algjör óþarfi að gera bragarbót á þessu akkúrat núna. Ég læt því nægja að setja inn fullt af myndum og skrifa meira síðar.

Svipmyndir úr sumarfríi

Og í guðanna bænum látið nú renna af ykkur!

 

Forsíða      Um okkur      Mín síða      Myndirnar okkar      Hafðu samband      Gestabókin okkar