Ágústdagbók 2007  

 

Forsíða

Um okkur

Mín síða

Myndirnar okkar

Hafðu samband

Gestabókin okkar

 

 

24. ágúst 2007

Tímamót

Hér á Konsulentvägen hefur hversdagsleikinn tekið við enn á ný eftir viðburðaríka sumarmánuði. Á mánudaginn byrjaði María í 1. bekk og móðir hennar fylgdist grátklökk með þar sem hún fyrst allra nemenda rétti upp hönd til að svara spurningu kennarans. Þegar mér varð hugsað til skólasetningarinnar ári áður þar sem pabbi hennar sat hjá henni og túlkaði eftir bestu getu það sem fram fór innan veggja skólastofunnar langaði mig mest af öllu að æða inn í miðjan bekkinn til að faðma stelpuna mína fast að mér. Sem betur fer tókst þó að forða barninu frá öllum vandræðalegum uppákomum í þeim dúr. Hugi er líka byrjaður aftur í leikskólanum eftir langt sumarfrí og stopula viðverðu að undanförnu. Hann er nú hvorki meira né minna en elstur allra barna á Hemmingsförskolan og er því vel við hæfi að pilturinn skuli vera kominn með tvær fullorðinstennur og eina lausa barnatönn (eins og hjá Maríu koma fyrstu fullorðinstennurnar upp fyrir aftan barnatennurnar áður en þær losna). Einar er svo að ljúka tímabili sínu sem læknir á Fålhagensvårdcentral og byrjar á öldrunardeildinni á Akademiska Sjukhuset í byrjun september. Og ég ... ég þykist eitthvað vera að lesa en ætli ég sé þó ekki aðallega með hugann við nýliðið sumarfrí enda búin að eyða góðum tíma í að nostra við myndaalbúm frá paradísareyjunni Grinda:

Sumarfrí á skerjagarðseyjunni Grinda

Megi komandi haust verða okkur öllum uppspretta ástar, hamingju, kærleika og friðar.

 

12. ágúst 2007

Æ, bara nokkrar í viðbót:

Að vökva afleggjara

 

10. ágúst 2007

Fyrir margt löngu hélt ég fyrirlestur og skrifaði ritgerð um bók eftir Pétur Gunnarsson. Nú, að því er virðist öldum síðar, ætla ég að endurvinna það allt í litla og snotra bókargrein. Þó það sé á brattann að sækja hlakka ég til að vinna verkefnið. Mér þykir nefnilega alltaf eitthvað svo vænt um Pétur. Þykir hann ríma svo ágætlega við mig, orða fallega það sem ég vildi sagt hafa. Eins og til dæmis þetta:

„Þetta er lífið. Þú áttar þig ekki á því rétt á meðan, álítur alltaf að það sé rétt í vændum, handan við hornið, innan seilingar. Fyrir bragðið gefurðu ekki gaum að augnablikinu nema eins og annars hugar samtali á næsta borði. En það er lífið sjálft.“ (Vasabók, bls. 13).

Kannski er það einmitt í tilraun til að finna lífið sjálft að ég útbý myndaalbúm eins og þetta:

Vardagslyx á Konsulentvägen

 

4. ágúst 2007

Smultronstället

Samvkæmt orðabókunum mínum þýðir smultronställe „óvanalega góður staður“. Í langflestum tilvikum er orðið notað yfir sumardvalarstaði og mér sýnist það oftar en ekki tengjast barnslegum upplifunum, annað hvort staður sem maður fór sjálfur á í æsku eða þá staður sem maður heimsækir til að njóta sumarfrísins með börnunum sínum. Smultronstället er svo auðvitað líka heiti á einni þekktustu og dáðustu mynd Ingmars Bergmans sem lést í síðustu viku.

Eftir rúma viku ætlum við fjölskyldan að dveljast í þrjá daga á stað sem ég er sannfærð um að er smultronställe! Við erum á leið út í eyna Grinda sem er tæplega klukkutíma siglingaleið frá Stokkhólmi. Eyjan sjálf er aðeins 2 km þar sem hún er lengst og á henni eru engir bílar. Þar er hins vegar eitt hótel (á hverju við munum dveljast), veitingastaður sem margoft hefur hlotið verðlaun sem sá besti í skerjagarðinum, annar minni veitingastaður sem er eins konar útibú frá þessum stóra, ein búð, eitt kaffihús, gestahöfn og svo sumarhúsaþyrping og farfuglaheimli.

Hótelið sjálft er í stóru gulu steinhúsi sem var byggt fyrir 100 árum. Markmið þess er gestirnir slaki vel á og hvílist í fallegu umhverfi. Þess vegna er hvorki sjónvarp né sími á herbergjunum en þess í stað góð rúm og vel útbúin baðherbergi. Ég er þegar orðin sannfærð um að þetta sé frábært hótel!

Dagskráin okkar á Grinda er einhvern veginn svona: Sigla með Vaxholmsbolaget til Grinda, njóta Saltkrákulegs útsýnis á leiðinni og taka margar myndir af litlum víkum, gömlum bryggjum, rauðmáluðum húsum á skerjum og agnarsmáum skógivöxnum eyjum. Koma okkur fyrir á hótelherberginu og prófa góðu rúmin í örstutta stund. Borða skagen samloku á kaffihúsinu, drekka sódvatn og kaffi. Rölta eftir skógarstígum og hvíla okkur á sólbökuðum klöppum við ströndina. Lesa góðar bækur. Baða í sjónum. Leigja árabát og róa í kringum Grinda og kannski út í aðrar nálægar eyjar. Borða kvöldmat á veitingastaðnum, kannski grillað entrecote og fjólupannacotta í eftirrétt. Sofna við mávagarg og öldugjálfur. Vakna og muna að maður er í sumarfríi. Finna hvernig hjartað blæs út af hamingju. Morgunverður á hótelinu. Gönguferð um eyna. Hádegisverður við gestahöfnina. Leigja sauna á flotbryggju og stinga sér í svalandi sjóinn af og til. Sólböð, salt og sjávargola. Kvöldverður á veitingastaðnum, í þetta sinn kannski túnfisksteik og ekólógískir ostar frá Ljusterö í eftirrétt, ásamt einni góðri súkkulaðitrufflu og kaffi. Stutt kvöldganga og horft á sólsetrið með berar tásur á kafi í sandi. Ekkert hugsað um að maður sé að missa af þætti af So you think you can dance! Lesa skemmtilega bók fyrir börnin fyrir svefninn og svo nokkrar blaðsíður í fullorðinsbók. Sofna við sama undirleik og kvöldið áður. Morgunverður á hótelinu. Gönguferð eftir mjóum stígum þar sem smultron eru tínd beint upp í munninn. Sólbað á klöppum. Síðbúinn hádegisverður á kaffihúsinu. Lesið í bók meðan beðið er eftir bátnum. Siglt til baka og spjallað um hvað ferðin hafi verið skemmtileg og hvað við séum öll miklu afslappaðri en þegar við fórum sömu leið tveimur dögum áður.

Getur þetta orðið eitthvað annað en frábært?!

 

Forsíða      Um okkur      Mín síða      Myndirnar okkar      Hafðu samband      Gestabókin okkar