Ágústdagbók 

Forsíða

Um okkur

Mín síða

Myndirnar okkar

Hafðu samband

Gestabókin okkar

 

29. ágúst 2005

Mikilvæg verkefni.

Ég á fyrir höndum að leysa nokkur afar mikilvæg verkefni. Einhverjar lexíkonfærslur þarf að skrifa, eina grein líka, eins þarf ég að lesa einar átta fræðibækur áður en haustönnin byrjar (þar sem það mun aldrei takast bíður mín líka það verkefni að finna upp á einhverri virkilega sannfærandi lygi sem afsakar þennan slóðahátt fyrir leiðbeinendunum).

Mikilvægasta verkefnið af þessum öllum er þó að átta mig á því hvort orðatiltækið á betur við um stöðu mína gagnvart hinum verkefnunum, „að vera með allt niður um sig“ eða „að vera með skítinn upp á bak“ Erfitt!

p.s. Eins og alltaf þegar mín bíða mörg mikilvæg verkefni ákveð ég að fara að sinna einhverju algjörlega ónauðsynlegu ... eins og að setja inn nýjar myndir.

 

24. ágúst 2005

Héðan í frá mun líf mitt að eilífu skiptast í tvo hluta. 

Fyrir og eftir Matteusarpassíuna.

Fyrir og eftir Weissage, Gegrüßet, Sein blut og alla hina kórana.

Fyrir og eftir Brutscher og augnablikið þegar ég kyssti hann drei Mal.

Fyrir og eftir Blaze og spjallið um sóprandrengi í Oxford, „stúlkuna“ ófæddu og skapofsaköst tveggja ára barna.

Fyrir og eftir þá undarlegu stöðu að standa á brjóstahaldaranum fyrir framan Thor Vilhjálmsson!

Ég verð aldrei söm aftur og vonandi ekki heldur þeir sem hlustuðu! Maður getur ekki annað en verið þakklátur fyrir að hafa fengið að taka þátt í þessu. Eins verð ég að þakka öllum þeim sem keyptu af mér miða ... ég rétt marði það að vinna miðasöluverðlaunin annað skiptið í röð!!!

p.s. Hérna má finna nokkrar myndir frá tónleikunum sem reyndar eru með þeim lélegri sem ég hef sett hingað inn ... þær hlutu aðeins náð fyrir augum vefsíðustjóra vegna þess hve kærum minningum þær tengjast!

 

16. ágúst 2005

Og sætasta skáldið er .... Haaaaaaaannes Hafstein!!!

Hannes sagðist enn í skýjunum yfir úrslitunum þegar Mín síða hafði samband við hann nú í morgun. „Ég átti alls ekki von á því að vinna enda voru þetta allt svo frábærir og sætir strákar sem voru með mér í keppninni! Ég sé sko alls ekki eftir að hafa tekið þátt því þetta hefur verið frábær reynsla þó undirbúningurinn fyrir keppnina sjálfa hafi stundum verið rosalega erfiður.“ Aðspurður sagðist Hannes hafa lært ýmislegt á þátttöku sinni í keppninni. „Sjálfstraust mitt hefur aukist til muna og við strákarnir, ég, Matti og Stebbi, urðum svo góðir vinir að það er alveg spúkí ... ég veit að það breytist ekkert þó ég hafi unnið. Mig langar líka að þakka öllum sem kusu mig; Imba, Þórunn, Svanhildur, skáldapía, Hrefna og Anna Þorbjörg ... takk fyrir að láta drauma mína að rætast!“

Hannes er fæddur árið 1861 og starfar sem fyrsti ráðherra Íslendinga og skáld. Hann hefur gaman af börnum, bóklestri, ferðalögum, stormasamri íslenskri veðráttu, hrjóstrugu landslagi og konungsheimsóknum. Við óskum Hannesi innilega til hamingju með titilinn!!!

Pssssttt ... nýjar myndir!

 

8. ágúst 2005

Sætasta skáldið!

Á allra næstu vikum þarf ég að negla viðfangsefni mastersritgerðarinnar niður. Ég er í raun ekki búin að ákveða neitt nema að fjalla um karlkyns rithöfund. Upp á síðkastið hef ég verið dálítið spennt fyrir þeim skáldum sem voru upp á sitt besta í kringum þarsíðustu aldamót, læt mér detta í hug að það væri óskaplega notalegt að eyða vetrinum í að lesa rómantísk ljóð við frostrósótta glugga. En ég verð að ígrunda málið vel áður en endanlegt val á skáldi fer fram. Næstu tveimur árum eða svo, þarf ég að eyða í félagsskap þessa manns, ganga í gegnum súrt og sætt með honum, hugsa um hann hverja vökustund, læra að þekkja hann og skilja. Ég treysti mér ekki í þess háttar sambúð með hverjum sem er.

Eins og flestir vita er aðeins eitt sem skiptir máli þegar hefja skal sambúð með karlmanni, það er að segja að hann sé nógu sætur! Einstaka lélegt ljóð, rangkveðnar stökur eða skakkir stuðlar ... þetta mun allt gleymast ef sambýlismaðurinn hefur til að bera glæsilegan vangasvip, fagurskapaðan líkama, flott dress og síðast en ekki síst, myndarlegan skeggvöxt. Til þess að auðvelda mér valið hef ég því komið á fót lítilli fegurðarskamkeppni sem ég kýs að kalla Sætasta skáldið. Nú bið ég ykkur, lesendur góðir, að skoða vel myndirnar hér fyrir neðan og gefa svo einum þessara fjallmyndarlegu manna atkvæði ykkar í kommentakerfinu, ekki væri verra að rökstuðningur fylgdi. Ef einhver er of feiminn til að láta nafn sitt fylgja má alveg greiða atkvæði undir dulnefni, mestu skiptir að ég fái sem flest atkvæði inn til að eiga sem besta möguleika að góðri mastersritgerð.

 

Fegurðarsamkeppnin Sætasta skáldið kynnir með stolti:

   

    Þjóðskáldið og presturinn             Ráðherrann og karlmennið                  Landneminn mikli                Matthías Jochumsson                   Hannes Hafstein                    Stephan G. Stephansson

Hver er sætastur???

 

5. ágúst 2005

Harry Laxness!

Nýverið lauk ég við sjöttu bókina um galdradrenginn Harry Potter. Bókin var frámunalega spennandi og síðustu blaðsíðurnar sat ég ýmist stjörf af ótta eða þá að tárin rúlluðu ofan í hálsmálið með tilheyrandi nefsnörli. Þegar lestrinum var lokið átti ég erfitt með að rífa mig burt úr hinum yndislega og töfrandi galdraheimi og undanfarna daga hefur það til dæmis verið fyrsta hugsun mín ef ég missi eitthvað í gólfið að nú hljóti einhver að hafa hexað mig. Ég þarf stöðugt að minna sjálfa mig á að það sé ekki möguleiki skjótast á sópnum út í Pétursbúð og hef nokkrum sinnum reynt að veifa uppþvottaburstanum yfir óhreina leirtauinu og hrópa „Scorgify!“ ... að sjálfsögðu án árangurs! 

Um leið og ég lauk við Potter beið mín lestur annars doðrants um annan afar merkilegan töframann, nefninlega ævisaga Halldórs Laxness eftir nafna hans Guðmundsson. Um þá bók þarf ég að skrifa grein á allra næstu vikum. Ég held að þetta verði mjög góð grein hjá mér. Í henni ætla ég að birta nýja og byltingarkennda kenningu um ævi Laxness og verk hans. Ég hef nú komist að þeirri niðurstöðu að Kiljan hafi verið sleipur í Legilimency, galdrinum sem gerir fólki kleyft að draga tilfinningar og minningar úr öðru fólki. Sjáiði til, þessi merkasti rithöfundur okkar Íslendinga notaði gjarnan raunverulegt fólk sem fyrirmyndir persóna sinna. Erlendur í Unuhúsi var fyrirmynd organistans í Atómstöðinni, Magnús Hj. Magnússon fyrirmynd Ólafs Kárasonar, hjónin í Melkoti fyrirmyndir ömmu og afa í Brekkukoti og þannig mætti lengi telja. Þegar ég renndi í gegnum ævisöguna í vor áttaði ég mig ekki á hinu rétta en núna, við seinni yfirferð, blasir sannleikurinn við: Laxness hefur beitt göldrum sínum til að draga ákveðna eiginleika úr þessu fólki sem hann hefur svo aftur veitt út í persónusköpun sína. Enginn þessara aðila hefur séð þegar hann sveiflaði vendinum eða heyrt þegar hann muldraði „legilimens!“ og veiddi í laumi upp úr þeirra innstu sálarkimum. Enginn þeirra gat varið sig með Occlumency. Já þetta verður mögnuð grein hjá mér sem mun róta upp í stöðnuðum hugmyndum manna um skáldið og bókmenntir almennt! 

p.s. Ég auglýsi hér eftir lítið notuðum „Quick-quotes quill“ ... held að hann gæti létt mér aðeins lífið við að skrifa þessa grein og komið að góðum notum við mastersritgerðina sem ég fer að vinna að í kjölfarið. 

 

2. ágúst 2005

Sumarfríið á enda

Í morgun rifum við okkur á fætur fyrir allar aldir, Einar lagaði kaffi og hellti morgunkorni á diska rétt áður en hann rauk hjólandi í vinnuna og ég rölti með Maríu og Huga á leikskólann skömmu síðar. Engir fleiri dagar þar sem farið er á fætur klukkan tíu, hangsað á náttfötunum til hádegis, bakaðar pönnukökur og vöfflur, skálað í kaffi í glampandi sólinni og börnum og manni tjáð ást og umhyggja í orðum og gjörðum allan liðlangan daginn. Þegar ég gekk alein út af leikskólanum í morgun var skyndilega komin úrhellisrigning. Úr þykkum skýjabólstrum fossaði regnið niður á gráar gangstéttarnar og litlir lækir streymdu ofan í niðurföllin. Einhvern veginn þannig leið mér líka.

 

Forsíða      Um okkur      Mín síða      Myndirnar okkar       Hafðu samband      Gestabókin okkar