Ágústdagbók 2004

Forsíða

Um okkur

Mín síða

Myndirnar okkar

Hafðu samband

Gestabókin okkar

 

25. ágúst 2004

Víðförul prjónaföt!

´    

Þessi peysa var prjónuð meðan þeyst var í rútu eftir frönskum hraðbrautum, hún var prjónuð meðan skraflað var á síðkvöldum í Edinborg, hún var prjónuð í sólbað í garðinum mínum, hún var prjónuð í sólbaði á sólpallinum hennar Evu og hún var prjónuð þegar sumardagskrá sjónvarsstöðvanna hafði ekki nægilegt aðdráttarafl! Þessi peysa er sumarið mitt í hnotskurn ... já og húfan líka. Engu að síður er hún ætluð til vetrarnotkunar ... og ég er sérdeilis stolt af afrekinu!!!

 

24. ágúst 2004

Er til einhver áráttu- og þráhyggjuröskun í sambandi við orkideur?! Er eitthvað ávanabindandi efni í orkideum sem gerir það að verkum að fólk verður alltaf að kaupa fleiri og fleiri? Eru til einhver 12 spora samtök fyrir fólk sem er fíkið í orkideur? Er hægt að gefa einhver lyf við þessu? Er einhver þarna úti sem á við sama vandamál að stríða?

Hjaaaaaaálp!!!

 

19. ágúst 2004

Húsmóðir í vesturbæ

  

Suma daga langar mig voðalega til að vera svona ekta húsmóðir. Þá langar mig að setja á mig eldrauðan varalit klukkan átta á morgnana, vekja börnin með heitu kakói, dunda mér við að taka slátur meðan þau eru í leikskólanum, senda fyrirspurn inn til Velvakanda um hvernig best sé að ná sósublettum úr jóladúknum, vera með svuntu allan daginn, þrífa bakarofninn með salmíaki, hringja í aðrar húsmæðravinkonur mínar og fá góð ráð við lapþunnum sósum, vera með skuplu og bródera „Guð blessi heimilið“ mynd. Svoleiðis dagur var í gær.

 Í gær ákvað ég að gera rifsberjahlaup. Klúðrið byrjaði eiginlega strax þegar berin voru tínd því ég gleymdi bæði að setja upp svuntuna og skupluna. Þrátt fyrir það náðist ágætis árangur í berjatínslu og mér fannst ég ákaflega mikil húsmóðir alveg þangað til um kvöldið þegar sultugerðin hófst. Fyrstu mistökin voru að sjálfsögðu að biðja húsbóndann að taka þátt í ævintýrinu. Sönn húsmóðir hefði að sjálfsögðu leyft bóndanum að sitja í hægindastól, reykja pípu og lesa blað meðan hún sultaði! En aðstoð Einars reyndist nauðsynleg! Ávaxtapressan sem fengin hafði verið til aðstoðar við verkið varð nefninlega tiltölulega snemma alveg stjórnlaus. Út um annan enda hennar vall þykkur berjasafi en út um hinn spýttist sú allra bleikasta drulla sem ég hef á ævi minni séð! Hin ágæta húsmóðir í Hlíðunum sem uppskriftina gaf hafði hins vegar sagt að úrgangurinn af berjasafanum ætti að vera eins og kúkur! Drullan sú arna var sem sagt eitthvað öðruvísi en til stóð og við hjónaleysin ákváðum að troða henni aftur í gegnum pressuna. Hún var því flutt yfir í nokkrar mismunandi skálar, troðið aftur í gegnum ávaxtapressuna og bleikt gums spýttist í allar áttir. Bleikir taumar láku niður skápa og veggi og mitt í allri drullunni hömuðust fjórar, fagurbleikar og kámugar hendur! Einmitt á þeim tímapunkti ákvað ávaxtapressan brjálaða að bræða úr sér! Uppfullt af ljósrauðri leðju gafst greyið upp. Flaumurinn af bleika gumsinu stöðvaðist en út um allt eldhús voru skálar með drullu af mismunandi þykkt og gæðum. Þrátt fyrir að mikil vinna hafi legið að baki flokkun og aðgreiningu á drullunni var ákveðið að skella öllu í risastóran pott ásamt sykri og byrja að sjóða sultu. Þegar leið á kvöldið var líka ákveðið að sía alla sultuna í gegnum grisju. Í safn bleikra skápa og heimilistækja bættust því bleikar tuskur og klútar ásamt bleikum skeiðum og sigtum! Undir nótt stóð húsmóðirin á Bárugötu því uppi með sex skitnar sultukrukkur með ókennilegri froðu í ... og fagurbleikt eldhús. Garg! Húsmóðir, smúsmóðir ... ég gefst upp á þessu öllu saman!!!

Ég er samt að hugsa um að láta verða af því að skrifa bréfið í Velvakanda. Það mun birtast svohljóðandi á næstu dögum: Húsmóðir í Vesturbæ hafði samband við blaðið og vildi kanna hvort ekki væri einhver sem gæti gefið henni góð ráð varðandi hvernig hún gæti losnað við bleiku rifsberjadrulluna og fengið rifsberjakúk í staðinn. Einnig langaði hana að vita hvort bleik eldhús væru í tísku.

 

15. ágúst 2004

Litbrigði húðar.

Ég er orðin svolítið sólbrún eftir góða veðrið undanfarna daga. En á meðan andlitið er svona rauðleirsbrúnt þá er hálsinn því miður hrímhvítur. Eins og mér þykir notalegt að vera í sólbaði þá er mér lífsins ómögulegt að stunda þá iðju nema vera annað hvort að lesa eða prjóna. Þar sem slíkt krefst þess að ég horfi niður er hálsinn iðulega í skugga og af því leiðir að hann verður eins og hvít rönd þvert yfir húðina. Bringan á mér er hins vegar mjólkursúkkulaðibrún ... fyrir utan einn blett en hann er enn jólarauður eftir að ég sólbrann um daginn! Brjóst, magi og rass eru einfaldlega trélímshvít ... ef það er þá svo gott! Handleggir og fótleggir hafa tekið nokkuð vel við sér í sólinni og eru orðnir gullinbrúnir ... að framan! Að aftan eru þeir enn í svipuðum lit og síðust jól eða vaxhvítir! Ég er röndótt!!!

Ég hef ekki enn lært þá göfugu list að velta mér nógu reglulega í sólbaði heldur húki undir húsvegg og læt sólina skína á framhliðina! Næst þegar það kemur hitabylgja til landsins ætla ég hins vegar að vera við öllu búin. Ég mun þá gæta þess að klæðast aðeins efnislitlum bikinium, ég mun vera með spegil við höndina til að endurvarpa sólargeislum upp undir höku og svo mun ég tímasetja snúninga af baki yfir á maga og aftur til baka! Næst ætla ég ekki að verða þverröndótt og hallærisleg! En þangað til get ég þó alltaf huggað mig við það að geta boðið mig fram til að bera heila auglýsingaherferð fyrir Benetton ein og óstudd!!!

pssst! Hitabylgjumyndir og nokkrar myndir úr sumarfríinu mínu bíða í ágústalbúmi!

 

12. ágúst 2004

Lokað vegna veðurs.

Vegna sumarblíðu verður síðan ekki uppfærð fyrr en hitastig fer niður fyrir 14 gráður! Vona að lesendur síðunnar séu svo uppteknir við að drekka í sig sól og yl að enginn sjái þessa tilkynningu! 

 

9. ágúst 2004

Er nokkuð yndislegra ...

... en brúðkaup? Slörið, slóðinn, hringarnir, kossinn, kakan ... ég elska þetta allt og tárast yfir þessu öllu! Reyndar er einn þáttur brúðkaupa sem hrífur mig sífellt meira ... nefninlega faðir brúðarinnar! Nú held ég að áhugi minn á eldri mönnum hafi ekki aukist sem neinu nemi að undanförnu og því sé ekki um slíka athygli að ræða! Nei, það er eitthvað við hans hlutverk sem heillar mig og ég er til dæmis farin að horfa mun meira á hann þegar gengið er inn kirkjugólfið en brúðina sjálfa ... hvað þá brúðgumann! Ég er búin að velta því óskaplega fyrir mér hvers vegna þetta sé og tel að ég sé komin að niðurstöðu. Ég held að þetta sé einfaldlega vegna þess að hann er foreldri ... eins og ég! Eftir að börnin mín fæddust er ég farin að líta tilveruna með augum foreldrisins. Þegar einhver ungur íþróttamaður stendur sig vel á Ólympíuleikum hugsa ég fyrst og fremst um það hvað foreldrar hans hljóti að vera stolt og þegar ungur afbrotamaður er fangelsaður þá finn ég svo sárlega til með pabba hans og mömmu. Í vor þegar ég fylgdist með fermingarbörnunum í Hallgrímskirkju hugsaði ég mikið um það hvað það hlyti að vera gaman að ferma börnin sín ... en minntist aftur á móti míns eigin fermingardags sáralítið! Svona mætti lengi telja! Þannig að þegar brúðurin gengur ung og fögur inn kirkjugólfið, geislandi af ást þá hugsa ég fyrst og fremst um það hvað foreldrar hennar hljóti að vera stoltir að hafa komið barni sínu svona vel til manns!!! Að sjálfsögðu veit ég að það er ekki faðir brúðarinnar einn sem hefur komið því til leiðar en hann verður í mínum augum tákngervingur þeirra feðra og mæðra sem við sögu koma í hverju hjónabandi. Einhvern veginn ímynda ég mér að brúðkaup sé pínulítil uppskeruhátíð fyrir okkur foreldrana! Á þeim dögum hlýtur manni að leyfast að líta yfir farinn veg og gleðjast yfir unganum sem eitt sinn spriklaði mállaus á prjónuðu teppi en flýgur nú fullþroska úr hreiðrinu! Það er þess vegna sem ég græt mest yfir föður brúðarinnar þegar mér er boðið til brúðkaups!!! Svo það er spurning hvort ég sé ekki orðin allt of „þroskuð“ til þess að gifta mig sjálf þegar ég er farin að samsama mig eldri mönnum frekar en brúðinni?!!

Elsku Stína og Tommi, innilega til hamingju með brúðkaupið ... og elsku Gústi, til hamingju með hana Stínu!!!

p.s. Myndir úr brúðkaupinu eru hér!

 

5. ágúst 2004

Hvernig er hægt að hafa svona mikið að gera í sumarfríinu? Ég skil þetta ekki! Mér finnst ég alveg þurfa að vinna hörðum höndum alla daga til að ná að gera þó ekki væri nema brot af því sem til stóð að koma í verk. Ég er til dæmis alveg búin að gefa upp vonina um að ég nái að renna yfir helstu verk heimsbókmenntanna fyrir lok sumarfrísins, hvað þá að ég nái að lesa eitthvað efni sem tekið verður fyrir í skólanum í vetur. Nei, núna þykir mér gott ef ég næ að lesa eins og eina bók á þessum fjórum vikum sem eftir eru þangað til alvara lífsins tekur við á ný. Ég hélt líka í vor að á þessum tíma yrði ég búin að prjóna eins og fjórar peysur á bæði börnin, nokkrar á mig og a.m.k. eina á Einar fyrir nú utan allan þann aragrúa af húfum, vettlingum og treflum sem ég ætlaði að gera í jólagjafir!!! En mér hefur ekki tekist að klára nema eina ermi og hálfan búk á einni lítilli peysu! Og sundferðirnar sem ég hélt að yrðu jafnvel tvær á daga ... tjah, mér er farið að þykja virkilega gott að komast tvisvar til þrisvar í viku í Vesturbæjarlaugina. Stóð mig að því að gleðjast í laumi þegar ég mætti þangað í dag og sá að það yrði lokað í tíu daga síðar í mánuðinum, þá þarf ég ekki að troða því inn í dagskrána á meðan. Já og allar kaffiheimsóknirnar til vinkvennanna ... eitthvað hafa þær runnið út í sandinn líka. Í hvað fer tíminn, ég bara skil þetta ekki?! Kannski í að setja myndir inn á vefinn því hér koma loksins myndir frá síðustu helgi! Sama system og vanalega, bara smella á myndina!

 

2. ágúst 2004

Edinborgarmyndirnar eru loksins komnar inn. Þá er bara að setja inn myndir helgarinnar og þá er ég búin að vinna allt tapið upp. Best að taka ekki fleiri myndir fyrr en það er búið, annar snýst þetta bara upp í vítahring! Smellið endilega á myndina hér fyrir neðan og skoðið Edinborgarferð stórfjölskyldunnar.

 

Enn 1. ágúst 2004

Tóti tölvukall ... neeeiii!

Í nótt þegar ég skrifaði færsluna hér fyrir neðan vissi ég ekki betur en að ég væri um það bil að fara að uppfæra flottustu síðu í bænum. Hins vegar byrjaði eitthvað bölvað rugl í tölvunni þegar því var lokið og við Einar veltum mikið fyrir okkur hvort við hefðum náð okkur í einhvern vírus eða hvort það væri einhver bilun hjá Islandia. Eftir tveggja tíma rannsóknarvinnu komumst við að uppsprettu vandamálsins ... fínu, sérsniðnu bakgrunnunum mínum!!! Já, ef það átti að vera hægt að skoða síðuna án þess að „browserinn“ færi í fýlu og neitaði að starfa eðlilega þá varð að taka þá út! Ég þakka bara fyrir að við komumst að þessu um hánótt og því hafa væntanlega fáir gestir á okkar síðu upplifað tímabundna bilun í tölvunni sinni! Í öllu falli fuku fínu bakgrunnarnir og myndirnar sem ég var búin að eyða næstum viku í að gera! Það verður seint sagt að ég sé tölvukall! En við erum svona smám saman að vinna í þessu og komast að rót vandans í von um að við getum notað alla vega eitthvað af þessu fína dóti mínu! Nú þegar hefur mér tekist að laga bakgrunninn sem átti að vera á myndunum okkar og setja hann upp og kannski dettur eitthvað fleira inn á næstu dögum. Æ, en kannski er síðan bara fín svona og ég ætti að hætta í þessari geðveiki og fara að einbeita mér að einhverju öðru?!

 

1. ágúst 2004

Nýir tímar, nýtt útlit!

Já, á sama tíma og hausttískan streymir í verslanir um allan heim er líka kominn tími á breytingar hér á síðunni okkar ... því auðvitað fylgjumst við grannt með straumum og stefnum í þeim málum sem og öðrum! Þar sem vefsíðustjórinn hefur ekki staðið sig alveg nógu vel upp á síðkastið er reyndar um nokkurs konar sambræðing úr vor-, sumar- og vetrartískunni að ræða enda ekkert verið snyrt til hér á síðunni frá því snemma á árinu! En úff, hvað ég er búin að eyða fáránlega miklum tíma í að koma þessum breytingum á koppinn! Það hlýtur að jaðra við geðveiki að sitja klukkustundum saman fyrir framan tölvuna til að sníða bakgrunna og myndir að eigin þörfum, fiska burtu gamalt efni og raða síðum upp á nýtt! Á meðan á þessum ósköpum stóð gafst lítill tími til að uppfæra vefdagbókina en frá og með deginum í dag lofa ég bót og betrun á því sviði! Innan skamms verður færð inn hver magnaða dagbókarfærslan á fætur annarri!

Flestar breytingarnar eru nú auðsjáanlegar en ég bendi sérstaklega á að ég er búin að bæta tveimur slóðum í safnið mitt hér til vinstri. Kristján, yngri bróðir Einars og Fanný, konan hans, eru við nám og störf í Danmörku og eiga von á sínu fyrsta barni síðar á árinu, endilega kíkið á þau. Svo er ég líka búin að lagfæra og breyta á síðunni sem ber heitið Um okkur. Á næstu dögum verður svo nýjum myndum hlaðið inn af krafti!

Ég vona að með þessum breytingum ljúka gífurlegri lágdeyðu sem verið hefur á síðunni undanfarnar vikur! Og ég vona líka að við eigum öll ákaflega spennandi en jafnframt notalegan ágústmánuð framundan.

 

Forsíða      Um okkur      Mín síða      Myndirnar okkar       Hafðu samband      Gestabókin okkar