Ágústdagbók 2003

Forsíða

Um okkur

Mín síða

Myndirnar okkar

Hafðu samband

Gestabókin okkar

 

30. ágúst 2003

Þessi dagur er búinn að vera alveg óstjórnlega langur...en sem betur fer nokkuð skemmtilegur. Heimsókn á bústaðinn til Ömmu á Sóló ber hæst...og svo góðu kökuna sem mamma bakaði í eftirrétt í kvöld. Namm!!! Ég er hins vegar alveg dauðuppgefin eftir daginn (og einhverjar vökur í nótt yfir fúlum Huga) að ég er að hugsa um að láta mér frekar detta eitthvað virkilega sniðugt í hug á morgun að skrifa í dabókina!

Góða nótt!

 

29. ágúst 2003

Mér varð að ósk minni, Hugi er búinn að vera alveg bráðhress í morgun! Ótrúlegur munur það!

Ég er búin að vera eitthvað að reyna að vinna meiri heimildarvinnu fyrir ritgerðina. Þarf að reyna að pota inn fleiri heimildum en veit satt best að segja ekki hvernig í ósköpunum ég á að fara að því. Það er allt heldur óspennandi sem skrifað hefur verið um manninn, eins og hann er skrifar nú skemmtilega sjálfur! Mér gengur því eitthvað illa að koma þessu heim og saman. Það er líka mjög erfitt þegar ég er svona næstum búin að skapa einhverja vinnustemmningu. Blaðran bara tæmdist við síðasta orðið sem ég skrifaði og gengur voða illa að blása lofti í hana aftur! Ég veit líka ekki alveg hvenær ég á að hitta kennarann næst þannig að ég er heldur ekki orðin stressuð!

Og nú er Svanhildur og fjölskylda komin til landsins. Eru væntanlega á leiðinni til Reykjavíkur í þessum skrifuðu orðum! Ég hlakka mikið til að heyra frá þeim en óttast því miður að við getum ekki hist fyrr en á sunnudag eða mánudag! Svanhildur ætlar að byrja á að skreppa í sveitina en mér sýnist hins vegar allt stefna í að ég verði pikkföst hér í bænum! Ekki það að ég hlýt að gera beðið í tvo daga, hef svo lítið hitt þau síðustu tvö árin að nokkrir klukkutímar til eða frá skipta ekki öllu! Gleðin verður bara þeim mun meiri þegar af þessu verður loks!

 

28. ágúst 2003

Eitthvað erfiður dagur!

Hugi er búinn að vera alveg óstjórnlega fúll í dag. Ég get ekki talið upp öll þau skipti sem hann hefur orðið reiður út í mig og alveg tapað sér í öskrunum! Í það minnsta er ég hálfuppgefin! Veit ekki alveg hvað honum gengur til, drengnum, en vona að dagurinn á morgun verði skemmtilegri!

Við fórum annars til Jódísar og Hrapps í kvöldmat. Það var alveg óskaplega notalegt. Það er svo gaman að hittast aðeins og eiga smá stund saman enda alltaf jafnnotanlegt á Þórsgötunni hjá þeim mæðginum. Ég er hins vegar alltaf með það á stefnuskránni að fara að vera duglegri við að fá fólk í mat til okkar. Maður er alltaf svo fastur í að það verði að vera um helgi, með voðalega fínum mat, helst þríréttað og vín með! En það er samt auðvitað alveg jafnnotalegt að hitta vini sína á miðvikudagskvöldi og bjóða upp á súpu og brauð...og mun líklegra til að maður drífi í því heldur en fína helgardinnernum! 

Og ég festi kaup á tveimur nýjum prjónablöðum í gær (áður en ég opnaði Visa-reikningana, hefði sennilega ekki haft samvisku í að kaupa þau eftir að það var gert!!!). Voða margt fallegt og ég alveg orðin æst í að fara að prjóna jólagjafir og afmælisgjafir handa ykkur öllum! Er ekki almenn stemmning fyrir því!!! Nú svo er aldrei að vita nema einhverjir fái sultukrukku frá okkur á Bárugötunni á næstunni! Ísskápurinn er orðinn troðfullur af bláberjasultu, bláberja-og sólberjasultu og bláberjasultu með koníaki og sherrýi!

 

27. ágúst 2003

„Hann heitir bara Jesú“!

Sagði María í gær þegar ég var að reyna að draga upp úr henni hvað aðstoðarpresturinn sem kemur reglulega á Drafnarborg héti! Já, þessi mæti maður sem kemur þarna eins og einu sinni í mánuði með gítar og syngur nokkur lög við miklar vinsældir ber sem sagt nafn frelsarans...aldeilis ótrúleg tilviljun það! Er prestur og heitir Jesú! Hmmm, reyndar grunar mig að það sé einhver misskilningur á ferðinni!!!

Umrædd María er hins vegar orðin veik! Svona vill þetta yfirleitt vera, þau skiptast á pestunum og það stendur heima að loks þegar það fyrra er farið að hressast þá er hitt lagst í rúmið! Í það minnsta ríkti hér hálfgerð óöld í gær þegar Hugi var enn fúll með verk í eyrunum og María kastaði upp og var með háan hita! Þau eru þó bæði sæmilega hress í dag og Hugi er feginn að hafa félagsskap yfir daginn! Búið að lita, hlusta á tónlist og hoppa í mömmu og pabba rúmi! Af þessum sökum hefur nákvæmlega ekkert gerst í ritgerðinni. Svo veit ég líka ekki alveg hvað ég á að gera!!!

Og nú er komið á hreint að Hugi mun ekki fá pláss á leikskóla á næstunni. Birna föðrusystir hans ætlar því að hlaupa undir bagga og gæta hans meðan ég sæki tíma. Heimanámið verður því bara að fara fram á kvöldin og um helgar. Sami háttur var hafður á síðustu vorönn og gekk ágætlega. Ekki það að mér þykir auðvitað hundleiðinlegt að verða að loka mig af til að lesa um leið og Einar og María koma heim úr vinnu og leikskóla. Það verður eitthvað minna úr fjölskyldustundunum þegar þannig stendur á. En ég er farin að hlakka mikið til að byrja í skólanum...og klára þessa ritgerð. Svo fer kórstarf vetrarins að hefjast fljótlega og ég hlakka þessi ósköp til þess. Er farin að sakna allra kórfélaga og svo verður auðvitað spennandi að sjá hverjir bætast í hópinn. Ef einhver hefur áhuga þá verða inntökupróf í næstu viku!!!

 

25. ágúst 2003

Ég sendi lokakafla ritgerðarinnar út í hinn stóra heim í morgun, með slæmri samvisku! Held að þetta hafi verið einhver bölvuð vitleysa. Það er orðið svolítið langt síðan ég vann eitthvað fyrir skólann og fannst það bara alveg ömurlegt. Verð bara að játa það að á síðustu önn var ég sannfærð um að ég væri best í öllu!!! En þetta kemur jú fyrir flesta og hefur sem betur fer lítið með gæði að gera. Verst finnst mér þó að ég er svolítið stopp núna. Hitti kennarann ekki aftur fyrr en á fimmtudag og á þá eftir að fara yfir fjölmörg atriði með honum fyrir nú utan að ég á enn eftir að fá stóran hluta ritgerðarinnar til baka. Ég get svo sem eitthvað dundað mér fram að því en ég vildi heldur að þetta gæti gengið hratt fyrir sig og svo ég geti lokið þessu af áður en skólinn byrjar eftir nákvæmlega viku. Vil helst ekki vera að byrja að læra í nýjum fögum og líka að reyna að klára þessa ritgerð. Það myndi aðeins þýða eitt: ritgerðin gengi fyrir og ég myndi sleppa því að læra! Og ég veit vel að ef ég byrja önnina í aðgerðarleysi þá næ ég mér aldrei á strik. 

Hugi með eyrnabólgu. Við vorum farin að vona að við værum laus við þann vágest...en verður greinilega ekki að ósk okkar. Hann er kominn á sýklalyf og hressist vonandi fljótt, búinn að vera heldur ómögulegur í dag, þessi elska.

Og nú eru Svanhildur, Sigurður Ágúst og Ástþór Örn alveg að fara að flytja heim. Dótið komið ofan í kassa og á leið úr landi, þau koma svo nokkrum dögum seinna eða nánar til tekið á föstudaginn! Mikið hlakka ég til. Það er svo óskaplega gaman að hafa fólkið sitt nálægt sér. Við Svanhildur erum með ýmislegt á prjónunum fyrir veturinn...meðal annars að hafa eitthvað á prjónunum (ha, ha, ha!). 

 

24. ágúst 2003

Elsku Berglind, til hamingju með afmælið!!!!

Þetta hefur nú annars verið meiri dagurinn. Ég er búin að sitja við að klára ritgerðina. Á að senda kennaranum mínum síðustu þrjár blaðsíðurnar fyrir hádegi á morgun og er loksins búin að skrifa þær. Já, ég er eiginlega búin með ritgerðina! Ekki það að það er hellingsvinna eftir, bæði þarf ég nú að fara yfir athugasemdir leiðbeinandans og færa inn eftir því sem við á. Svo hef ég hug á að pota inn nokkrum tilvitnunum hér og þar til að heimildaskráin verði aðeins bólgnari...það er svo flott og akademískt að vera með stóra og feita heimildaskrá! Svo getur vel verið að ég bæti við örstuttum kafla í lokin. En í það minnsta er þetta langt komið. Ég verð þó að játa að í mínum huga er þetta engin sigurstund. Nei einmitt núna sé ég ritgerðina fyrir mér sem rjúkandi brunarúst! Ímynda mér að þetta sé allt alveg hræðilegt og á skakk og skjön við hugmyndir lærifeðra minna. Skynsemin segir mér að það geti varla verið en ég neita að hlusta á það gamla fífl! Í staðinn vel ég mér að sitja stíf af stressi og seitt í lófum fullviss um að ég verði felld og þurfi að byrja upp á nýtt á komandi önn!!!

Hugi litli er líka orðinn lasinn sem hefur lítið gert til að auka á gleði mína. Maður venst því einhvern veginn aldrei að vera með barn sem er hálfrænulaust af hita eins og hann hefur verið seinnipart dags. Mér finnst þetta í það minnsta alltaf jafnerfitt. Litla skinnið hefur skipst á að sitja í fangi foreldranna í dag, bara á bleiunni en samt svo heitur að það væri hægt að kynda allt hverfið með honum. Ég vona svo innilega að hann verði skárri á morgun.

Og ég vona líka annað, mjög innilega. Ég vona að innan skamms geti ég hætt að kvarta og kveina undan þessari ritgerð hér á síðunni minni. Þá mun sko taka við betri tíð með blóm í haga þar sem ég reyti af mér brandarana og kem með djúphugsaðar vangaveltur um lífið og tilveruna og þið hafið ekki undan við að skrifa komment!!!

 

23. ágúst 2003

Vaknaði við jarðskjálfta í nótt...skelfing!!!

Fyrir sumarið 2000 fannst mér ótrúlega spennandi þegar jarðskjálftar riðu yfir. En eftir að hafa gengið í gegnum þá lífsreynslu að upplifa Suðurlandsskjálfta í skírnarveislu dóttur minnar og hafa svo nokkrum dögum seinna verið komin með hana hálfa leið út um miðja nótt þegar seinni skjálftinn reið yfir (æ, hún var algjör dúlla og vaknaði sko ekkert þó við værum búin að rífa hana upp úr rúminu) þá finnst mér jarðskjálftar alveg hræðilegir. Og það var alveg ótrúlega óhuggulegt að hrökkva upp í kolniðamyrkri og dauðaþögn þar sem ekkert heyrðist nema þungur niðurinn í skjálftanum og minn eigin hjartsláttur sem ómaði um alla borgina, að mér fannst! Nóttin var sem sagt ekki svefnsöm og þar sem ég hafði lært fram á nótt hef ég verið ansi þreytt í dag og kraftlaus í lærdómnum. Við skelltum okkur í staðinn út á róló snemma í morgun til að fríska okkur aðeins við. Kíkið á myndir af krílunum! (Það má segja að það hafi gripið um sig örvænting þegar ég áttaði mig á að ágúst var að verða búinn en bara eitt albúm í ágústmyndamöppu!!!)

Ritgerðin gengur bara vel. Í gær vakti ég sem sagt fram eftir til að laga þýðinguna. Kennarinn minn, Guð blessi hann, hafði farið alveg einstaklega vel yfir hjá mér svo það var eiginlega bara handavinna að lagfæra þetta. En tekur sinn tíma, þetta eru um fjörutíu blaðsíður! Í dag er ég svo búin að vera að reyna að umrita innganginn eftir ábendingum. Hefur nú bara gengið sæmilega en ekki mikið meir. Það er alltaf svolítið erfitt að vera búin að gera sér ákveðnar hugmyndir um eitthvað en þurfa að breyta eftir hugmyndum annarra. En þá er bara um að gera að láta slag standa og prófa sig áfram, er það ekki?! Það sem eftir lifir dags er ég svo að hugsa um að halda áfram að bæta það sem búið er að fara yfir af ritgerðinni en get vonandi í kvöld eða í síðasta lagi á morgun hellt mér út í að skrifa síðasta kaflann. Ég á mér þjáningarsystkin í þessum lærdómi, Sigurður Ágúst er að undirbúa varnarræðu fyrir mastersverkefni sitt í Danmörku og Björg er að læra undir haustpróf í Búdapest! Áfram krakkar!!!! Mér liður miklu betur að vera ekki ein í heiminum!!!

 

22. ágúst 2003

Helgarfrí!!!!

Ég elska helgarfrí þó ég sé yfirleitt ekki í meira fríi en vanalega. Ef eitthvað er þá þarf ég að skrifa alveg eins og brjálæðingur um helgina! En það er svo gaman þegar öll fjölskyldan getur verið heima saman.

Við Hugi skelltum okkur í bæjarferð í morgun sem tók óvænta stefnu þegar ég ákvað að athuga hvort ég gæti látið klippa hann. Hárið hans hefur verið óttalega lufsulegt og svo sem staðið lengi til að gera bragarbót á. Kornið sem fyllti mælinn var svo þegar við vorum spurð að því í gær hvað „hún“ væri gömul!!! Þá var greinilega kominn tími á einhverja huggulega herraklippingu! Við brugðum okkur því á hárgreiðslustofuna mína og komumst strax að. Ég sat undir honum því ég vissi svo sem alveg hvað koma skyldi! Hann varð BRJÁLAÐUR!!! Orð geta sko ekki lýst því hvað honum fannst þetta ömurleg lífsreynsla. Ég fer nú sjálf reglulega í litun og klippingu og nýt þess að láta dekra við mig á þessari sömu stofu, sötra kaffi og lesa slúður. Ég vorkenndi því óskaplega viðskiptavinum og starfsfólki Hár Expó þegar Hugi hóf upp raust sína í mótmælaskyni!!! Það hefur væntanlega alveg verið til að drepa niður stemmninguna hjá þeim sem voru djúpt sokknir í nýjustu fréttir af Beckhamhjónunum eða verið að grandskoða kjólana, skartið og glamúrinn á einhverri árshátíðinni!!! En út kom herrann nýklipptur og ansi hreint fínn. Endilega kíkið á myndir af drengnum hér.

Ég fékk svo óvænta en vel þegna heimsókn frá Birtu og áttum við saman hinn ljúfasta eftirmiðdag við kaffidrykkju og spjall. Og hún gaf sultu heimilisins góða einkunn! Ég treysti því að hún hafi ekki verið með lygaramerki á tánum!!!

Góða helgi öll saman!

 

21. ágúst 2003

Loksins er búið að sulta úr berjunum góðu sem tínd voru síðustu helgi. Reyndar bara helmingnum, við erum að hugsa um að verka afganginn á morgun og jafnvel gera einhverjar tilraunir. Hvernig líst ykkur t.d. á bláberja og sólberjasultu? Okkur dettur eitthvað í hug. En það er alveg ógeðslega gaman að gera sultu, svo flott að horfa á safann leka úr berjunum og blandast við sultuna. Svona:

Við tókum nokkrar myndir í viðbót, endilega kíkið á þær hér! Örugglega eina myndaalbúmið fyrr og síðar á þessari heimasíðu þar sem ekki er ein einasta mynd af börnunum!

Annars ágætur dagur að baki. Ég átti fund með leiðbeinandanum í dag. Hafði tekist með mikilli eljusemi að skrifa næsta kafla í gær og skilaði honum í dag. Honum líst, held ég, bara vel á þetta hjá mér, þýðingin er svo gott sem klár, á bara eftir smá handavinnu við að færa inn breytingar kennarans. Ritgerðin er á lokasprettinum, ég þarf aðeins að umrita innganginn og á svo eftir að skrifa síðasta kaflann. Og svo auðvitað alls konar dútl við að lagfæra, breyta og bæta, pota inn nokkrum aukaheimildum o.s.frv. Mér finnst alveg fáránlegt að þetta sé komið svona langt og að vita til þess að núna er í raun fátt sem getur komið i veg fyrir að ég útskrifist í október! Það er ekki svo langt síðan ég söng við hverja útskriftina á fætur annarri með Háskólakórnum þess fullviss að þetta ætti ekki fyrir mér að liggja, þ.e.a.s. að standa á sviðinu og taka á móti....já, bíddu, hverju tekur maður eiginlega á móti!...æ, þið vitið! Þess vegna finnst mér þetta alveg ótrúleg tilhugsun sem ég næ ekki almennilega utan um! En ég stefni að því að klára að mestu vinnuna við ritgerðina á næstu 10 dögum. Finnst það vissulega svolítið bratt en held að það skipti miklu að vera búin með þetta í byrjun september þegar skólinn byrjar. Í byrjun september er líka bókmenntahátíðin og ég þarf tíma til að fara á viðburði á vegum hennar. Nú er búið að birta dagskrána og það er geypilega margt spennandi í boði. Ég mun ekki láta mig vanta þegar Silja Aðalsteinsdóttir tekur viðtal við Haruki Murakami eða þegar hann les upp úr verkum sínum! Kíkið hér á dagskrána!

 

20. ágúst 2003

Sit hér undir rjáfri og velti fyrir mér hvernig ég gat verið svona vitlaus að nýta ekki undanfarna viku í ritgerðina. Ég á að hitta leiðbeinandann á morgun og það verður frekar vandræðalegt að mæta til hans með svona eina blaðsíðu í viðbót við þær tuttugu sem ég skilaði í síðustu viku! Ég er alvarlega að hugsa um einhverja góða, upplogna afsökun tengda tölvu eða prentara...einhverjar uppástungur?!!

Og svo styttist í að skólinn sjálfur byrji, bara ein og hálf vika. Ég er reyndar ekki alveg búin að ákveða í hvaða kúrsa ég fer, það verður að ráðast eftir framboði á barnagæslu og öðru. Það var svo sem ekki margt spennandi í boði á haustönninni en ég fann þó nokkra sem mér líst vel á. Jaðarbókmenntir hljóma spennandi (og kennarinn var ýkt góður við með þegar ég var ólétt af Maríu!) og svo er ég frekar æst yfir tveimur kúrsum í Íslenskunni, Eftirstríðsárunum og Ævisögum. Ég var í einu námskeiði í þeirri skor síðasta vor (vá, rím!) og það opnaðist heill heimur fyrir mér enda frekar sjaldgæft að farið sé í íslensk verk í almennri bókmenntafræði, þó það komi vissulega fyrir. En ég geri ekki ráð fyrir að taka fleiri en 10 einingar enda finnst mér það alveg nóg meðan maður er að átta sig á hlutunum í nýju námi að ekki sé nú talað um meðan barnapössun er tæp! En ég hlakka virkilega til að byrja í skólanum og sé í dýrðarljóma ferðir á Kaffi Kúk, kaffistofuna í Árnagarði, Deli eða á salatbarinn í Norræna húsinu í hádeginu. Æ, nú hljóma ég eins og mér finnist nám í Háskóla bara snúast um mat...en ég hlakka auðvitað mest til að takast á við námið og læra eitthvað nýtt...og fá hæstu einkunnirnar!!!!!!

 

19. ágúst 2003

Tíminn líður svo hratt að það er alveg ótrúlegt! Bæði finnst mér það gott og slæmt. Það góða er t.d. að Svanhildur vinkona og fjölskylda flytja heim eftir bara 10 daga, eitthvað sem mér fannst, fyrir ekki svo löngu, að myndi bara gerast í fjarlægri framtíð þegar allir ferðuðust um á fljúgandi geimskipum!!! En á hinn bóginn þarf að fara að skila ritgerð sem ekki er tilbúin, mæta í tíma sem ég sé ekki fram á að geta (nema með Huga með mér!) og ýmislegt sem mér fannst líka fyrir stuttu að nægur tími væri til að leysa!!! Ég get nú sjálfri mér um kennt varðandi ritgerðina, ég hef verið einum of dugleg við að eyða tímanum í eitthvað rugl!

Eitt af því er að lesa glanstímarit (sem er ekki bara tímaeyðsla heldur líka peningaeyðsla!). Eins og svo oft áður keypti ég mér Marie Claire um daginn. Þetta var eitthvað svona 15 ára afmælishefti og voða grín að tengja töluna 15 einhvern veginn við næstum öll umfjöllunarefni blaðsins. Eitt af þeim voru svo viðtöl við 15 ára stelpur víðsvegar að um heiminn, þ.á.m. eina frá Íslandi. Ég hef sjaldan skammast mín eins mikið fyrir að vera Íslendingur og þegar ég las þetta. O.K. ég hef tamið mér að tala ekki illa um fólk á hér á síðunni (maður veit jú aldrei hverjir eru að lesa, gæti vel verið ein víðlesnasta heimasíða landsins!!!!!) en ég get nú eiginlega ekki orða bundist yfir þessu. Þessi ágæta íslenska dama sagðist fá 50.000 í vasapening á mánuði!!!! Fimmtíuþúsund!!!! Bíddu, hvað er í gangi?! Hvað hefur 15 ára barn við fimmtíuþúsund krónur að gera á mánuði? Það skammarlegasta af öllu var að þetta var náttúrulega a.m.k. tíföld upphæð miðað við hinar stelpurnar frá hinum löndunum...af þeim sem á annað borð bjuggu svo vel að fá vasapening! Ég hugsa að það séu ekkert rosalega margar íslenskar fjölskyldur sem eiga meira en 50.000 í afgang þegar búið er að borga af húsnæði og kaupa mat og aðrar nauðsynjar. Það er náttúrulega bara hreint og beint vandræðalegt að eitt barn fái í vasapening á mánuði upphæð sem þarf að duga flestum fjölskyldum til að kosta allt það sem til fellur á heimilinu í hverjum mánuði að ekki sé nú litið til annarra staða í heiminum þar sem þessir peningar duga kannski til að kosta menntun eins barns fyrir lífstíð! Kannski er ég eitthvað gamaldags en ég myndi ekki kæra mig um að barnið mitt væri að eyða vel yfir hálfri milljón á ári í geisladiska og föt...fyrir nú utan það að maður veit auðvitað ekkert í hvað peningarnir fara...en það er nú önnur saga!!! 

Annars er allt gott að frétta héðan. Smá skjálfti út af ritgerðinni, annar fundur með kennaranum eftir tvo daga og ég hef ekki skrifað staf síðan ég hitti hann síðast! Og útlitið er svart varðandi leikskólapláss fyrir Huga og nám næsta vetur því í svolitlu uppnámi hjá mér. En æ, þetta bjargast, er það ekki?

 

18. ágúst 2003

Við vorum allan daginn í gær í sveitinni. Lögðum snemma af stað í frábæru veðri og nutum þess svo sannarlega að keyra þessa fallegu leið í Reykhólasveitina. Mamma kom með okkur og börnin vildu að sjálfsögðu fá að vera í ömmubíl. Eftir að komið var á áfangastað byrjuðum við á að staldra við hjá afa í sveitinni og þáðum brauð og kaffi. Síðan var haldið í Þorskafjörðinn, klöngruðumst uppi í hlíð og tíndum ber í nokkra klukkutíma. Ágætis berjaspretta en berin samt frekar smá. Við komum heim með svona 5 lítra sem ættu að nægja okkur í nokkrar krukkur af ljúffengri bláberjasultu. Við fórum síðan aftur að Hólum og þáðum heimaverkað hangikjöt og meðlæti í kvöldmat og svo ís og kaffi á eftir. Það er nú ekki amalegt að geta heimsótt Þórarin í sveitina enda Hólar víst talið eitt af fallegustu bæjarstæðum á landinu, ég get vottað að það hlýtur að vera satt! Á heimleiðinni vorum við Einar aftur tvö í bílnum og höfðum það skemmtilegt með hinum frábæra samkvæmsilek Hver er maðurinn? Það hlýtur að vera traustasti svona bílaleikur sem til er. Við áttum nokkra góða spretti, Einar átti í erfiðleikum með Árna Johnsen og ég var ekki að fatta Jóhönnu Sigurðardóttur þrátt fyrir að ég væri með upplýsingar um að hér væri á ferð gráhærð þingkona Samfylkingarinnar, skil ekki hvernig ég klikkaði á því!!! Einar fattaði reyndar ekki heldur Sigurð Ágúst þrátt fyrir að vera kominn með upplýsingar um að þetta væri maður vinkonu minnar búsettur erlendis!!!! Þegar heim var komið tók hins vegar sælan skjótan enda! Börnin höfðu ýmist sofið of mikið eða of lítið í bílferðum dagsins og við vorum því til hálf tvö í nótt með þau öskrandi og æpandi. Dagurinn í dag hefur því bara verið notaður í að jafna sig eftir ævintýri helgarinnar! Og ekkert gerist í ritgerðinni...þetta fer að verða hættulegt!

Myndir úr berjamó hér!

 

16. ágúst 2003

Menningarnótt og afmælisdagur mömmu! Til hamingju mamma mín!

Við erum búin að vera á spani í allan dag! Fyrst í morgunkaffi til Birnu, svo á kóræfingu, kaupa afmælisgjöf handa mömmu, afhenda afmælisgjöfina, fara á bæjarrölt, skipta yfir í kórbúning, syngja tónleika, syngja við helgistund, heim aftur að horfa á flugeldasýninguna út um þakgluggann! Allt mjög skemmtilegt en svolítið pökkuð dagskrá samt! Þessir tónleikar í kirkjunni eru nú eiginlega eini menningarviðburðurinn á menningarnótt sem ég tek þátt í...en það er svo sem nógu skemmtilegt, troðið út úr dyrum og í kvöld var svo heitt í kirkjunni að ég fann svitann leka niður bakið undir búningnum!!! Í fyrra horfði ég svo á flugeldasýninguna úr Hallgrímskirkjuturni í kjölfarið. Það var reyndar ekkert svo skemmtilegt. Hæðin og fjarlægðin orðin það mikil að flugeldarnir kepptu varla við borgarljósin...og skíttöpuðu keppni við alveg dásamlega fagurt sólarlag! Í ár var því bara þakglugginn opnaður upp á gátt enda alveg frábært útsýni þaðan!

Á morgun verður haldið í sveitina til að tína ber og heimsækja pabba Einars að Hólum. Ég á ný stígvél til að skarta í þeirri ferð, jibbí! 

Góða skemmtun á menningarnótt!

 

15. ágúst 2003

Þetta er alveg ótrúlegt. Í gær tók ég mér frí frá allri ritgerðarvinnu, eða ekkert frí svo sem þar sem ég fór og hitti kennarann, og afleiðingin af því er að í dag hefur mér bara engan veginn tekist að koma mér í gang. Alveg bara eins og ég hafi farið í sex vikna sumarfrí!!! Kannski líka af því að ég þarf að lesa mér aðeins til áður en ég get klárað afganginn og æ, það er eitthvað svo fúlt að þurfa að lesa eftir að hafa verið í aksjón að skrifa!!! Einum of rólegt!

Við Hugi erum annars búin að þeytast um bæinn í dag í rigningunni. Ég lét bólusetja Huga milli þess sem við leituðum að afmælisgjöf handa mömmu sem á afmæli á morgun. Árangurinn var ekki mikill, einn öskureiður strákur með stungufar á rassinum og ein þreytt mamma, en engin afmælisgjöf!!!

Á morgun verð ég svo að syngja á tónleikum klukkan 21 í Hallgrímskirkju með kórnum mínum. Allir á menningarrölti velkomnir!

 

14. ágúst 2003

Viðburðaríkur dagur að baki.

Við Hugi fórum af stað eldsnemma í morgun til að keyra Einar í vinnuna og láta hann prenta út eintakið af ritgerðinni sem leiðbeinandinn átti að fá. Skelltum okkur svo í smá heimsókn til Ömmu á Sóló, þáðum nessopa og spjölluðum. Mamma ætlaði svo að gæta Huga meðan ég færi á fundinn en þar sem ég var svolítið snemma á ferðinni til hennar ákvað ég að koma við í nærfatabúð í Síðumúlanum. Þegar inn var komið ákvað ég svo að máta nokkra brjóstahaldara. Því hefði ég hins vegar betur sleppt, ó já! Hugi ákvað nefninlega að það væri ýkt sniðugt að draga tjödin í mátunarklefanum frá og aftur fyrir hvað eftir annað! Þarna stóð ég á brjóstunum og gat ekkert gert! Nema náttúrulega þakka Guði fyrir að vera í galtómri búið í Síðumúla en ekki t.d. Kringlunni á föstudagseftirmiðdegi!!! En afrakstur ferðarinnar var þó að ég fékk ný nærföt auk þess sem tvær saklausar konur úti í bæ hafa nú séð á mér brjóstin...oft!!!

Fór svo á fund kennarans sem gekk mjög vel. Hann var ánægður með þýðinguna og leist vel á plönin varðandi ritgerðina. Það var enginn smá léttir! Það er frekar lítið sem þarf að laga í þýðingunni og nú er ritgerðin langt komin, á ekki eftir nema svona 1/3 giska ég á. Ég á svo fund með honum eftir viku og er ekki bara málið að kýl´á´ða þangað til og drífa eins mikið af og ég get?!!

Ég hitti svo mömmu og Huga í Kringlunni, fengum okkur kaffi og beyglu á Kaffitári og ég náði að spretta úr spori og kíkja í nokkrar búðir. Nú vilja lesendur sjálfsagt ólmir fá að vita hvort eitthvað hafi veirð keypt! Jú, að sjálfsögðu! Ég fann jakka eins og ég er búin að leita mér að í heila eilífð (eða kannski bara síðan í vor!). Svartur bómullarjakki, með engu fóðri eða axlapúðum! Mjög fínn og ég var aldeilis ánægð með þessi kaup. Verður maður ekki líka að fá verðlaun eftir svona vel heppnaðan fund með kennara?!!! Ég bara spyr!!!

Kvöldinu var svo eytt í að klára Murakami. Ég er eiginlega nýbúin að þurrka af mér skælurnar! Ekki það að bókin hafi verið svo sorgleg...eða hún er náttúrulega smá sorgleg...heldur bara svo óendanlega falleg. Ég skil þetta ekki. Hvernig er hægt að taka orð, bara sömu orð og notuð eru til að segja fréttir af fiskveiðikvóta eða skrifa kennslubók í landafræði, og búa til eitthvað svona yfirnáttúrlega fallegt úr þeim? Þetta er einhver tegund af gullgerðarlist! En ég mæli með þessari bók. Hiklaust. Ef það hefur ekki komið fram þá heitir hún Norwegian Wood í enskir þýðingu (ég vildi óska að ég gæti lesið hana á japönsku) og er sum sé eftir Haruki Murakami.

Helgin framundan. Við stefnum að berjatínslu í Þorskafirði. Vona að þið finnið ykkur eitthvað skemmtilegt að gera líka!

 

13. ágúst 2003

Eitthvað hefur nú letin verið við völd á þessum bæ í dag! Ég sem ætlaði alveg að kýl´á´ða svo ég væri bara með fullt tilbúið á morgun þegar ég hitti kennarann. En æ, allt í einu fannst mér bara í raun ekki skipta svo miklu hvort ég væri búin með blaðsíðunni meira eða minna! Og leiðbeinandinn er öðlingsmaður svo ég efast líka um að honum finnist það skipta öllu! Ég skrifaði svo sem slatta í dag en einhvern veginn var meira freistandi að eiga notalegan dag með Huga í þessari rjómablíðu. Við skelltum okkur því í bæjarferð árla dags, kíktum í búðir og létum sólina skína á okkur. Nú eru lesendur væntanlega orðnir æsispenntir að heyra hvort eitthvað var keypt!!! Jú, ég keypti mér einn dúllulegan hlírabol, ekki það að sumarið er að verða búið en æ, það var ekki hægt að sleppa þessum, rauður með hvítum doppum! Nema hvað, svo bauð ég herranum mínum litla út að borða í hádeginu. Fórum á einhvern stað sem heitir Reykjavík Bagle Company. Nýbúinn að opna og alls kyns kræsilegt í boði. Kökurnar...mmmmmm...þær voru sko girnilegar. En við létum okkur nægja hvort sína beygluna. Mín var reyndar aðeins mis en Huga fannst þetta alveg æði, makaði rjómaosti út um allt andlit og sat svo og vinkaði starfsfólkinu skælbrosandi! Alveg ótrúlega huggulegt hjá okkur og ljóst að Hugi veitir staðnum meðmæli sín...og ég líka þrátt fyrir allt! Svo var farið á hjólið aftur. Já Huga finnst greinilega ekki nógu töffað að vera að þvælast um bæinn í kerru og kallar hana hjól! Og ég tek alveg þátt í þessu með honum, um að gera að vera ekki að láta hann fá minnimáttarkennd! Við köllum kerruna því í sameiningu stóra hjólið! Eftir smá blund inni í í rúmi fórum við út í garð, ég las bók en Hugi skottaðist eitthvað í kring. Hann var nú algjör dúlla, hljóp þarna um og sagði Halló blóm og Halló Bitti (Bjartur er kisan okkar en hann var auðvitað ekki úti heldur bara einhverjar aðrar kisur). Sem sagt alveg yndislegur dagur þó ég hefði kannski viljað skrifa meira!

Nú eru uppi einhverjar hugmyndir um að fara í berjamó næstu helgi ef ekki verður stöðug rigning. Það yrði gaman og ég hlakka svo til að búa til sultu. Í fyrra gerði ég sólberjasultu sem heppnaðist vel og ég er æsispennt að gera frekari tilraunir. En ég er alla vega alveg farin að leggjast á bæn að ekki rigni. Það hljómar ótrúlega vel að skreppa í dagsferð út fyrir borgarmörkin, tína ber og skoða náttúruna.

Og eitt enn, ég er farin að huga að jólagjöfum...er ég alveg klikk?

 

12. ágúst 2003

Alltaf eitthvað að!

Í dag gengur örlítið betur með ritgerðina a.m.k. var ég búin að skrifa jafnmikið klukkan níu í morgun og ég hafði gert klukkan fjögur í gær!!! Búin með blaðsíðu í dag...verð auðvitað að ná að gera miklu meira. En í dag veldur ritgerðin mér engu sérstöku hugarangri...einmitt kannski vegna þess að mér finnst ekkert liggja á að klára hana fyrir haustið þar sem ég er allt í einu farin að óttast að ég sé ekkert að fara í skólann í haust!!! Já, ég er orðin úrkula vonar um að Hugi litli fái leikskólapláss...og ef hann ekki fær leikskólapláss eru mögleikar mínir til að sækja tíma orðnir ansi takmarkaðir. Við eigum nú eftir að skoða þetta aðeins betur og það er bara óskandi að það verði gífurlegur fólksflótti úr vesturbænum og segjum upp í Grafarholt (eitthvað heyrði ég um að það gengi illa að selja allar þessar fínu íbúðir sem þar er búið að byggja) þannig að allt í einu losni leikskólapláss í lange baner!!!

Til að hressa aðeins upp á mig og síðuna set ég hér inn blómamyndir sem ég tók áðan af liljum sem ég keypti í Eden í Hveragerði handa Hönnu í tilefni af opnun myndlistarsýningar hennar. Þar sem ég fór dagavillt á sýningunni varð ég bara að eiga blómin sjálf!!! Elsku Hanna mín, ef þú lest þetta, til hamingju með sýninguna, svona blóm hefðir þú fengið ef þú hefðir opnað hana á laugardegi en ekki sunnudegi!!!

Fallegar ekki satt? Ég elska blómamyndir! Mér fannst alltaf frekar fyndið þegar amma tók myndir af blómunum sínum og raðaði inn í albúm! En ekki lengur! Núna finnst mér alveg æði að skoða og taka myndir af blómum! Ég er kannski eitthvað sjötug í anda?!

 

11. ágúst 2003

Hvar væri heimurinn án hins merka rits Handbók um ritun og frágang!?

Ég er búin að fá endanlega staðfestingu mína á því að ég er ýkt léleg í skráningu á heimildum. Þetta er svo klúðurslegt hjá mér og ekki einasta tekst mér ekki að gera þetta rétt heldur veit ég bara ekkert hvar ég að að vísa í heimildir. Þrátt fyrir að Svanhildur, sem er náttúrulega sagnfræðimenntuð og því ótrúlega góð í svona, hafi hjálpað mér eins mikið og hún getur þá er ég enn alveg „clueless“! Reyni að rýna í Handbókina en enda annað hvort á að vísa í heimlild eftir hverja setningu (jafnvel oftar) eða þá ég þurrka út allar tilvísanir í heimildir! Ég er alveg að bilast á þessu!

Ég er líka að bilast á því hvað ég er ótrúlega agalaus í þessum ritgerðarskrifum! Í dag hefur framgangur ritgerðarinnar verið eftirfarandi: Ég sest niður, opna skjalið og hugsa með mér að nú þurfi ég að fá góða hugmynd að því hvernig byrja eigi nýja kaflann. Svo fer ég kannski á netið, laga kaffi eða blaða í námsbókunum meðan ég bíð eftir að góða hugmyndin komi. Klukkutíma seinna hugsa ég með mér að það þýði ekki að hanga svona, ég verði að fara að skrifa þannig að ég opna skjalið aftur og átta mig á að það eina sem þurfi að gera sé að fá góða hugmynd að því hvernig nýi kaflinn eigi að byrja...svona getur þetta gengið í fleiri, fleiri klukkutíma áður en mér tekst loks að setja einhverja setningu niður á blað (sem er kannski ekki fullkomna setningin sem ég var alltaf að bíða eftir heldur bara ágætis setning, fullkomlega nothæf til að segja það sem ég vildi segja og hægt að byrja vítahringinn á næstu setningu!) Aaaarrghh! Ef ég væri ekki að skrifa um svona frábærlega skemmtilegt efni sem ég er ótrúlegt nokk, enn alveg æst yfir, þá held ég að ég væri bara farin yfir um! 

Erla Kristín á afmæli í dag, til hamingju með daginn, elsku vinkona!

 

10. ágúst 2003

Sunnudagur til sælu...eða þannig!

Fyrri hluti dagsins var reyndar eintóm sæla. Messa í morgun, alltaf gaman að hitta fólkið og spjalla. Ég er stöðugt að reyna að veiða upplýsingar um væntanlega kórferð upp úr áhrifamönnum innan kórsins. Gengur nokkuð vel nema ég hef verið einum of áberandi í áhuga mínum fyrir þessari ferð og orðin auðvelt skotmark í einhverja ferðanefnd!!! Sjáum nú til hvort ég læt nokkuð plata mig í einhverja svoleiðis vitleysu í haust! Síðan fór ég í yndislega súpu og brauð til Jennýjar móðursystur minnar á leið heim úr kirkjunni. 

Seinni hluta dagsins hefur hins vegar verið eytt fyrir framan tölvuna án nokkurs árangurs. Ég er að byrja á nýjum kafla sem ég ákvað nýlega að bæta við og er því ekkert sérstaklega vel mótaður. Fyrir utan það þá er bara alltaf erfitt að byrja á kafla, svolítið svona eins og að vera alltaf af og til að byrja á byrjuninni! Já það hefur hvorki gengið né rekið í dag. Sem er náttúrulega ekki nógu gott. Ég hef bara nokkra daga til stefnu áður en ég skila leiðbeinandanum inn og þá ætlaði ég að vera búin með sem mest. Þá ÞARF ég að vera búin með sem mest!!! Þannig að, ég sný mér aftur að þarfari skrifum en þessum!

 

 

9. ágúst 2003

Í gær straujaði ég eins og vindurinn. Það var ýkt gaman! Ég gufaði svo mikið að það var komin móða á rúðurnar hér í litla súðarherberginu! Nú er ég næstum (en bara næstum) farin að sjá eftir að hafa ekki keypt 27 þúsund króna straujárnið!!! En ritgerðinni miðaði samt aðeins áfram í gærkvöldi og svo dreif ég mig líka í að raða myndum inn í albúm með Bailey´s glas mér í hönd! Sem sagt árangursríkt kvöld!

Í dag stendur svo ýmislegt til. Ég þarf að læra og mig langar líka ógnarmikið að skreppa aftur í Smáralindina og versla þar eitt og annað sem ekki náðist í gær. Síðan hefur verið fastur liður hjá fjölskyldunni að skella sér á Gay Pride gönguna. María er búin að tala um „gönguna“ næstum allt síðasta ár! Ef hún sér eitthvað virkilega skrautlegt er hún alltaf sannfærð um að það hljóti að tengjast „göngunni“ á einhvern hátt!!! Við vonumst því til að ná göngunni þetta árið líka áður en við brennum austur fyrir fjall á lítið ættarmót mömmu Einars og systkina hennar. Á leiðinni stoppum við svo vonandi í Hveragerði...ekki til að kaupa ís í Eden, heldur til að líta inn á opnun Hönnu vinkona í Listasafni Árnesinga! Já það verður sko nóg að gera í dag. Í fyrramálið á ég svo messu þannig að það er dagskrá alla helgina.

Langar ykkur að lesa eitthvað skemmtilegt á netinu? Kíkið þá endilega á Björgu sem skrifar um líf alvöru skvísu! Björg var með mér bæði í Hagaskóla og MR og ég á margar góðar minningar tengdar henni. Tvær standa upp úr og báðar tengjast 10. bekk. Ég minnist þess hvernig borðið mitt hristist í vélritun þegar Björg skipti um línu! Við sátum nefninlega hlið við hlið og hún átti ekki svona rosalega smart ritvél eins og við hin (mín var til dæmis grá og bleik!) heldur bara svona gamlan jálk sem hristist og skalf þegar Björg hamraði á hann! Það þarf varla að taka það fram að þrátt fyrir þetta var Björg laaang best í vélritun og fékk alltaf 10!!! OG...svo minnist ég samtals sem við áttum í skíðaferðalagi. Þar var rætt um fötin sem við höfðum klæðst ellefu eða tólf ára. Þarna einhverjum þremur árum seinna þóttu þetta hafa verið hinar hlægilegustu flíkur og ég man að við hlógum og hlógum að einhverri fjólublárri satínblússu sem Björg lýsti og hafði á sínum tíma þótt hinn besti spariklæðnaður! Það allra fyndnasta er náttúrulega að ef við gætum sest niður núna þá myndum við án efa hlæja okkur máttlausar að fötunum sem við klæddumst einmitt um þær mundir sem þetta samtal átti sér stað!!! Björg mín, ef þú lest þetta, manstu: svartar útvíðar buxur með einhverjum gullhnöppum niður eftir skálminni, ökklahá leðurstígvél með klósetthæl og breiðri tá, afabolir úr Guðsteini að ógleymdum Levi´s 501, reyrðum í mittið með einhverju hlunka belti!!!!???? Those were the days!

 

Enn 8. ágúst 2003

Jæja þá eru blessaðar myndirnar komnar inn!!! Til að gera langa sögu stutta þá var nú hluti klúðursins því að kenna að ég er ekki alveg nógu mikill Tóti tölvukall...en þetta var samt asnalegt, tafði mig frá ritgerðinni hálfan daginn og kann ég þeim hjá Hans Petersen ekki góðar þakkir fyrir!!! Hinum helmingi dagsins tókst mér svo að eyða frá ritgerðinni án aðstoðar þeirra!!! Ég dró nefninlega Einar með mér í Elko að kaupa straujárn og straubretti! Við áttum svona kannski 97 ára gamalt straujárn og ekkert straubretti. Svanhildur, sem er afar dugmikill straujari sjálf, skildi bara ekkert í mér...eðlilega!!! Undarlegast af öllu er að ég er komin af einum af heimsmeisturum strausins og tókst samt að lifa án þessara nauðsynja! Mamma mín er nefninlega týpan sem straujar nærbuxur og handklæði líka! Elsku mamma og Svanhildur, nú er ég klár í slaginn og mun, eftir smá æfingu, skora á ykkur í skyrtustrauningum! En svo fékk ég líka að fara í Smáralindina að leita mér að svartri peysu. Í vor hélt ég að mig myndi aldrei framar langa til að klæðast svörtu, en viti menn, haustið nálgast og ég get ekki hætt að hugsa um svört föt! Ég endað með að kaupa mér tvær svartar peysur og eina tösku. Gamla taskan mín (sem reyndar er taskan hans Huga en ég er með í láni) bilaði smá á Strikinu í Kaupamannahöfn þegar ég reyndi að troða góssi fyrir fleiri tugi þúsunda í hana!!! Nýja taskan er líka rosalega dúlluleg, flauel, blóm, bróderí og slaufur...gæti það nokkuð verið betra!!!

En áfram með smérið og ritgerðina. Endilega kíkið á myndir frá húsmæðraorlofinu hér!

 

 

8. ágúst 2003

Héðan er lítið að frétta. Morguninn fór í að reyna að koma myndum frá Danmerkurferðinni inn á síðuna. Í stuttu máli gekk það ekki og ég er hundpirruð á Hans Petersen en þeir skrifuðu myndirnar af filmunni og yfir á disk fyrir morð og milljón! Og á meðan á öllu þessu hefur staðið hefur að sjálfsögðu ekkert gerst varðandi ritgerðina.En nú er bara að skella sér í sturtu, fá sér kaffi og hefja vinnuna!!! Geymi þetta myndarugl til betri tíma.

Enn ein helgin nálgast og eftir hana fer Einar til vinnu aftur eftir sumarfrí. Ég vildi nú gjarnan hafa hann heima áfram...gott að hafa einhvern sem eldar ofan í mann, lagar kaffi, sér um yfirlestur og veitir alhliða stuðning svona þegar ritgerðin er í smíðum. En það er ekki á allt kosið og í næstu viku tekur við gamla rútínan okkar Huga. Ekki það að hún var svo sem ekki amaleg og Hugi er náttúrulega einn besti félagi sem völ er á. Það getur enginn kvartað undan samvistum við svona dúllu:

 

 

7. ágúst 2003

Hér er ég sest við tölvuna til að læra en að sjálfsögðu get ég ekki komið mér að verki strax þannig að best er að uppfæra síðuna!

Ég gerðist ótrúlega dugleg í morgun og tók til í fataskáp og kommóðu barnanna. Þar voru farin að safnast upp föt sem þau Hugi og María voru löngu vaxin upp úr og þegar ég kom heim frá Danmörku með nýjan og fínan haustfatnað þá komst hann varla fyrir. Það var því drifið í að flokka, brjóta saman, fara með í Rauða krossinn og upp í geymslu. Þetta er alveg nauðsynleg aðgerð af og til. Reyndar alltaf vandkvæðum bundið þar sem geymslupláss hér í íbúðinni er af skornum skammti. Ég verð því að vera duglegri en ég kæri mig um við að láta frá mér eða henda!

Síðdegis var ég svo boðin í kaffi til Ingu. Einar og Hugi fengu að kíkja við líka í vöfflur og kaffi og á endanum var María einnig sótt á leikskólann! Við Inga tókum að okkur barnapössun og gættum Áróru litlu í smá stund meðan Guðrún Hrund brá sér á fund. Barnagæslan gekk afskaplega vel og við vorum mjög stoltar barnapíur þegar við lukum störfum, búnar að skipta á bleium, rassabaða og svæfa!!! Og ekki einn einasti grátur...eða svo gott sem!!! Alltaf gaman að líta við í Faxaskjóli og þiggja gott kaffi og spjall. Inga, Vignir og Björt eiga alveg ótrúlega fallegt fiskabúr og mig langar svooooo mikið í fiska þegar ég kem í heimsókn til þeirra. Er alltaf að reyna að telja Einar á að það sé góð hugmynd og er m.a.s. búin að fá Maríu í lið með mér. Hugsið ykkur bara hvað það væri gaman að koma í heimsókn til mín og skoða fiska!

Ritgerðin hefur því setið fullmikið á hakanum þennan daginn. Ég verð bara að vera dugleg fram að kvöldi en eftir að krílunum hefur verið komið í ró ætlum við Einar að þiggja gott boð Birnu frænku um að fá að skreppa aðeins út tvö saman. Já kannski verð ég bara að vera dugleg við ritgerðina á morgun í staðinn!

 

 

6. ágúst 2003

Búið að stækka plássið, nú fer allt í gang aftur!

Það var nú kannski ágætt að ég gat ekki komið inn færslu í gær því það hefði sko verið ömurleg færsla. Gærdagurinn var nefninlega svona dagur þar sem allt gekk á afturfótunum! Ritgerðin strand, ég gat ekki skráð mig í Háskólann og var alveg að tapa mér af áhyggjum yfir að námsferillinn minn væri í einhverju rugli og að ég gæti ekki útskrifast, auk þess sem ég var alvarlega að hugsa um að fara að „stalka“ leiðbeinandann minn þar sem illa gekk að ná í hann eftir hefðbundnum leiðum! Þetta var bara einn af þessum dögum þar sem ekkert gengur upp. Sem betur fer er lögmálið nú yfirleitt að í kjölfarið á þeim dögum kemur dagurinn sem allt gengur upp!!! Og það var dagurinn í dag!!! Eftir að hafa sofið út sættist ég nefninlega aðeins við ritgerðina og gat haldið áfram og gert nokkrar lagfæringar. Í hádeginu fékk ég loks tölvupóst frá kennaranum og á fund með honum í næstu viku. Því næst hringdi ég á skrifstofu heimspekideildar þar sem mér var tjáð að búið væri að samþykkja ferilinn minn og mér því ekkert að vanbúnaði að útskrifast í október svo framarlega sem ritgerðin verði tibúin í tæka tíð. Til að toppa gleðina fór ég svo aftur upp í HÍ og gat loksins skráð mig í nám næsta haust! Þá var auðvitað ekkert eftir nema bara taka góðan göngutúr í sólinni og fagna árangri dagsins! Svo er auðvitað ekki um annað að ræða en að taka sér tak og vinna hörðum höndum næstu viku svo ég geti skilað kennaranum mínum sem mestu inn þegar við hittumst.

Nú er María byrjuð aftur á leikskóla eftir sumarfrí og finnst það svaka skemmtilegt. Hún var nefninlega farin að hafa miklar áhyggjur af þessari sumarlokun. Hún er sko strax farin að hlakka til að fara í Háskólann svo þegar ég tilkynnti henni að fyrst þyrfti hún nú að fara í barnaskóla, svo gagnfræðaskóla, svo menntaskóla og þá gæti hún loksins farið í Háskólann þá horfði hún skelfd á mig og sagði alvarleg: Mamma, það VERÐUR að fara að opna aftur á leikskólanum!!! Já það var eitthvað svo tilgangslaust að vera að vera í fríi í mánuð þegar allt þetta var eftir.

 

 

3. ágúst 2003

Plássið á heimasíðunni er búið og gengur eitthvað erfiðlega að fá það stækkað. Þessi skilaboð komast því vart til skila fyrr en seint og um síðar.

Ég er búin að vera ýkt dugleg í ritgerðinni í dag. Nú eru blaðsíðurnar orðnar alls fimm og farið að ganga örlítið hraðar. Mér finnst ég reyndar orðin rammvillt í efninu og á orðið erfitt með að aðgreina stóru atriðin frá þeim smáu. Mig langar til dæmis óskaplega að segja frá því í ritgerðinni að Boal hafi vingast við mús í fangelsinu...en ég efast um að leiðbeinandanum þyki það kjarnaatriði!!! Það er líka skrýtin tilfinning að geta ekki leitað til annars eftir hjálp eða útskýringum þar sem ég er örugglega sú manneskja á Íslandi sem þekki þetta efni best (ef einhver vill mótmæla því þá gefi hann sig fram!!!). Æ og svona fyrst ég er farin að tala um Boal og lítil nagdýr þá verð ég að láta flakka hér eina sögu sem ég geri ekki ráð fyrir að hljóti náð fyrir augum prófdómara og fær því ekki að vera með í ritgerðinni! Á tímabili var Arena, leikhúsið hans Boal, mikið í söngleikjum (nú verða menn að átta sig á því að við erum alls ekki að tala um Cats eða Phantom of the Opera heldur svona frumsamda byltingarsöngleiki ætlaða til að frelsa lýðinn í Brasilíu!) Í einum söngleiknum birtust nefninlega alltaf þrjár rottur í loftræstistokk leikhússins þegar ákveðið lag var leikið. Þarna kúrðu þær meðan lagið ómaði og augun blikuðu í myrkrinu. Þegar lagið var búið sneru þær við og komu ekki aftur fyrr en þegar lagið var leikið næsta kvöld!!! Algjörar dúllur og álit mitt á rottum hefur hækkað ögn eftir þessa sögu (ekki mikið samt!)! Og úff, mikið var gott að finna hér vettvang til að segja bæði músasöguna og rottusöguna, nú líður mér mun betur að hafa ekki pláss fyrir þær í ritgerðinni!

Þórunn systir á afmæli í dag. Til hamingju með daginn elsku stóra systir!

 

 

2. ágúst 2003

Fyrsti í verslunarmannahelgi!

Við erum búin að eiga ótrúlega fínan dag. Ég reyndi að læra aðeins í morgun. Mér finnst nú ganga örlítið hægar en ég vonaðist til, er bara komin með tvær og hálfa blaðsíðu! En alltaf gott að þetta mjakist frekar en hitt.

Í eftirmiðdaginn fórum við svo í smá pikknikk með Ölvi, Evu og Emil. Ætluðum í Heiðmörk en uppgötvuðum eftir smá hringsól að við höfðum ekki hugmynd um hvar Heiðmörk væri!!! Ég veit, þetta er skammarlegt! Eftir smá keyrslu endaði hópurinn við Hvaleyrarvatn, stað sem ég vissi ekki einu sinni að væri til. En greinilega voru ekki allir jafnfáfróðir og ég því þarna var fullt af fólki að veiða, vaða og sóla sig. Við röltum eftir þröngum stígum þar til við fundum okkur góðan stað, settumst niður og borðuðum samlokur og ávexti. Það vantaði ekkert nema kaffið sem við Einar náðum ekki að hella upp á brúsa áður en við fórum að heiman! Þetta var hinn allra yndislegasti eftirmiðdagur og ef þið viljið skoða nokkrar myndir smellið þá bara á þessa hér fyrir neðan. 

Dásamlega fallegt! Veit einhver hvort Hvaleyrarvatn er einhvers staðar í nágrenni við Heiðmörk?!

Nú eru börnin komin upp í rúm og á sómasamlegum tíma í þetta sinn! Ég er að hugsa um að lífga aðeins upp á fráganginn sem eftir er á heimilinu með Bailey´s sem ég keypti í fríhöfninni! Farið nú varlega í umferðinni um verslunarmannahelgina og njótið blíðunnar.

 

 

1. ágúst 2003

Kominn ágúst, ritgerðarmánuðurinn skelfilegi. En ég tala nú ekki um það meira, nóg er ég nú samt búin að kvarta undan því hve stressuð ég sé yfir þessari ritgerð. Betra að vinda sér yfir í skemmtilegu hlutina! 

Við erum búin að eiga góðan dag hér í góðu veðri. Fengum Þórunni systur í heimsókn og drifum hana í kaffi og sódavatn á teppi úti í garði og höfðum það ótrúlega notalegt. Mamma kom og sótti Huga og Maríu (eins og svo oft áður) og við Einar gátum átt smá kærustuparaeftirmiðdag og -kvöld. Þeim fer nú óðum fjölgandi þessum kærstuparastundum svona þegar börnin vaxa úr grasi. Alla vega skelltum við okkur í Ikea og keyptum nýtt vinnuborð. Það gamla er svo lítið að ef ég er með fartölvuna þar get ég ekki með góðu móti verið með bók við hliðina á en eins og allir vita þá er það nauðsynlegt þegar maður er að skrifa ritgerð. Eftir Ikea ferðina skelltum við okkur svo í mat á Banthai og í kaffi á Súfistann eftir. Ótrúlega notalegt og nauðsynlegt af og til að dekra svona við sig. Ekki það að ég er náttúrulega nýkomin úr fjögurra daga stanslausu dekri sem skilið hefur eftir sig varanleg ör á Visakortinu. Úff, ég keypti svo margt fallegt. Endurnýjaði snyrtivörulagerinn meðal annars með hinum dásamlegu kremum frá Ole Henriksen. Svo verlsaði ég skálar í Grönlykke og ýmislegt smálegt í Lisbeth Dahl. Föt á börnin í tonnatali og svo fékk ég þrenn pils og þrenna boli sjálf. Síðast en ekki síst keypti ég mér dásamlega eyrnalokka. Við Svanhildur sáum gullsmið sem okkur leist vel á í Alt for damerne og skunduðum í búðina. Þetta var algjör ævintýrastaður þar sem ég hefði sko vel getað hugsað mér að eiga hvern hlut sem til sölu var. Stefni að því að fá Einar til að bjóða mér til Kaupmannahafnar til að kaupa útskriftargjöf í þeirri búð!

Nú er hins vegar mál til komið að leggja sig. Reyndar er hér eitthvað hörkupartý í nálægu húsi, búið að syngja Stál og hnífur og Knocking on heaven´s door ásamt því sem ýmisir góðir diskar hafa fengið rispu! Þessa stundina er verið að syngja hástöfum með Love me do!!!! En ykkur hinum óska ég góðrar nætur.

 

Forsíða      Um okkur      Mín síða      Myndirnar okkar       Hafðu samband      Gestabókin okkar