Afmælisstrákur og annað

Eins og flestir lesendur vita væntanlega varð Hugi sjö ára í janúar! Fyrir utan þann stórviðburð gerðist hins vegar fátt markvert í mánuðinum hjá okkur Konsulentum þannig að með afmælismyndunum hans Huga fá að fljóta þær örfáu myndir sem tilefni þótti að taka undanfarnar vikur.

Hér er hann, hinn sjö ára Hugi Einarsson að morgni afmælisdags síns!

Yfir morgunkakóinu/-kaffinu fylgdumst við með honum opna gjafirnar sínar. Hér er það pakki frá ömmu Imbu sem er í vinnslu en upp úr honum kom skemmtilegur dvd-diskur í safn systkinanna.

Og svo pakki frá mömmu og pabba ... þegar maður er orðinn sjö ára les maður sjálfur á afmæliskortin.

Mamma og pabbi gáfu föndurdót (sem staðið hefur á óskalistanum lengi!) og þá var bara að opna pakkann frá Maríu en hún hafði keypt lego handa bróður sínum.

Að lokum var svo komið að riiisastóra pakkanum frá mömmu, pabba og Maríu!

Hvað gæti eiginlega verið í svona stórum pakka?!

Hvorki meira né minna en íshokkíspil! Hugi hefur nefnilega mikið dálæti á fótboltaspilinu sem til er í skólanum þannig að við ákváðum að gefa honum íshokkíútgáfuna, enda íshokkí eins konar þjóðaríþrótt Svía. Það tekur líka mun minna pláss en fótboltaspilið!

Þar sem systkinin voru enn í jólafríi tóku þau daginn rólega á náttfötunum og prófuðu spilið. Hér er leikur milli Svíþjóðar og Finnlands í fullum gangi og ómögulegt að sjá hver hefur yfirhöndina.

Nokkrum dögum síðar keypti ég fyrstu túlípana ársins! Guði sé lof fyrir túlípanatímann!

  

Þessir hvítu voru guðdómlega fallegir.

Það hefur orðið þó nokkur breyting á uppröðun hinna ýmsu hljómflutningstækja í stofunni. Þar sem gömlu græjurnar okkar stóðu stendur nefnilega orgelið dásamlega nú. Eins þurfti bara yfirhöfuð að endurnýja hljómflutningstækjakost heimilisins þar sem þau gömlu höfðu verið biluð frá því þau komu úr gámnum fyrir tveimur og hálfu ári! Í byrjun hverrar spilunar hoppar nefnilega geisladiskurinn fram og til baka ... en lagast svo í kannski svona fimmta eða sjötta lagi. Þetta höfum við sem sagt látið yfir okkur ganga allt of lengi og þótti því vel við hæfi að gera allsherjarbreytingar. Og hér er afraksturinn!

Laugardagskvöld og allir í stuði!!!

Það er komin önnur prjónakona á heimlið! Ég kenndi Maríu að prjóna fyrir áreiðanlega ári síðan en það gekk ekki alveg nógu vel þótt hún væri ósköp dugleg. Á endanum grófst dúkkutrefillinn fíni sem hún hafði byrjað á neðar og neðar í föndurkassann. Um daginn ákváðum við að gera aðra tilraun, völdum nýtt garn úr afgangahrúgunni minni og hófumst handa. Og það var engu líkara en að allar leiðbeiningarnar frá því síðast hefðu haldið áfram að síast inn á undanförnum mánuðum, í það minnsta þurfti ég varla að kenna henni nokkurn skapaðan hlut núna áður en hún var ein og óstudd farin að prjóna!

         

Þetta getur samt verið svolítið snúið stundum ... en líka skemmtilegt!