Afmæli, snjókarlar og vöfflur

Eitthvað er orðið langt síðan settar voru inn myndir. Til að bæta úr því kemur hér stutt syrpa með myndum af hluta afmælisgjafa húsmóðurinnar, snjókarlagerð í garðinum og vöfflupartýi á konudag!

Afmælisblómin þetta árið voru þessir dásamlega fallegu ranaculusar! Ég veit að þetta eru uppáhaldsblóm margra sem ég þekki!

Hvítu kertastjakana fékk ég frá Einari í afmælisgjöf með morgunkaffinu. Þeir hafa verið á óskalistanum hjá mér lengi.

Þessa óskaplega fallegu orkideu fékk ég Einar til að gefa mér síðdegis á afmælisdaginn! Hún er risastór og með tvo stöngla, hvor um sig með fjölda blóma.

Afmælisdeginum eyddi ég á rölti í Stokkhólmi. Þar keypti ég mér meðal annars afmælispils úr svona óskaplega fínu efni! Það var annars mjög skemmtilegt í stórborginni þennan dag og ég dreif mig til Södermalm en þann borgarhluta þekki ég nánast ekki neitt. Í fyrsta skipti í langan tíma leið mér pínulítið eins og ég væri í útlöndum í Stokkhólmi!

Ég fékk ekki bara kertastjakana frá Einari heldur gaf hann mér líka þessa innrömmuðu blýantsteikningu. Þetta er stúdía af berguglu eftir Lindorm Liljefors sem er einn af þekktustu dýramálurum Svía. Pabbi hans, Liljefors eldri, er hins vegar mun frægari gaur og þykir einn virtasti náttúrumálari þjóðarinnar. Því má svo bæta við að sonur Lindorms er líka málari og nú stendur einmitt yfir hér í Uppsölum sýning á verkum þessara þriggja kynslóða. Blýantsteikningar eru í miklu uppáhaldi hjá mér og ég er uglusjúk ... myndin sló því algjörlega í gegn eins og gefur að skilja!!!

Um daginn steig hitinn rétt upp fyrir frostmarkið og varð snjórinn hér því loks hæfur til snjókarlagerðar. Systkinin skelltu sér út í framleiðslu. Hugi gerði þennan ótrúlega fína karl ...

... og María gerði svona litla og sæta snjókarlastelpu.

Skömmu seinna var hún búin að bæta við einni dúllu í viðbót!

Nú er María orðin svo stór og dugleg að hún skreppur stundum ein út í búðina sem er hér handan við hornið. Yfirleitt fer hún til að kaupa laugardagsnammi fyrir þau systkinin en nýlega áttuðum við Einar okkur á að það var líka hægt að senda hana í einfaldar innkaupaferðir til heimilisins og hér kemur hún heim með tvo mjólkurpotta.

Á konudaginn var slegið upp vöfflupartýi hér á Konsulentvägen. Hér sjást systkinin bíða spennt eftir að fá að bragða á krásunum meðan pabbinn lagar kaffið.

Það var heldur betur notalegt hjá okkur!

Konan á heimilinu var ánægð með veitingarnar!

Húsbóndinn var líka hress með munninn fullan af vöfflum!

Hugi var þó sjálfsagt manna ánægðastur með framtakið enda er meiri sælkeri vandfundinn!

Vaffla með frjálsri aðferð!

Heimasætan duglega þiggur gjarnan sultu á sínar vöfflur en frábiður sér allan rjóma!