Afmæli og allskonar

Eins og dyggir lesendur síðunnar vita hafa myndir síðastliðinna vikna verið fastar í myndavélinni þar sem minnið á harða disknum í tölvunni var fullt. Nú hefur loksins tekist að troða þeim inn og þá er bara að sjá hvort nægt pláss sé í minni ritara síðunnar til að hægt sé að skrifa einhvern texta af viti!

Hugi varð 8 ára þann 7. janúar! Mér sem finnst hann alltaf svo lítill!

Afmælisdeginum var fagnað með hefðbundnu morgunkaffi með pönnukökum og tilheyrandi.

Þessi var aldrei slíku vant ekki í aðalhlutverki þann daginn og fitjaði bara upp á trýnið!

Pakkarnir opnaðir.

Frá Maríu systur fékk hann þetta ótrúlega flotta legosett, hægt að byggja þrjú ólík hús, nú eða bara láta sköpunargleðina ráða för. Við Konsulentvägen mælum heilshugar með Creator línunni frá Lego!

Gullfallegur afmælisdrengur.

Í hádeginu á afmælisdaginn voru enn allir á náttfötunum og afgangar af hamborgarhrygg á boðstólum. Sem sagt mjög góður dagur!

Baldur Tumi var sjúúúklega hress með þetta allt saman!

Óskaafmælismaturinn voru pizzur og grínmyndastuðið frá áramótunum var rifjað upp undir borðum.

Ekkert smá brjálæðislega fyndið!

Hér er líka venjan að afmælisbörnin megi óska eftir köku að eigin vali og Hugi bað um skúffuköku sem hann skreytti svo sjálfur með flugeldum og pakka. Ég verð svo bara að segja að ég baka alveg syndsamlega góðar skúffukökur!

Túlípanatíminn er genginn í garð okkur öllum til mikillar gleði, ekki satt?

Feðgar í fríi!

Jólaamaryllisarnir mínir voru enn í blóma í janúar og svona líka fagrir og dásamlegir.

Blómstrandi amaryllis + nýja myndavélin = ást!

Rúsína í rannsóknarferð.

Þarna var hann tiltölulega nýfarinn að mjaka sér markvisst hér eftir gólfunum. Hann kýs enn að beita þessari tækni við að koma sér áfram og er því yfirleitt allur þakinn ryki frá höku og niður á tær! Hann er þó farinn að þróa nýja aðferð sem hann beitir æ oftar, þá er hægra hnéð og vinstri il í gólfi - mjög krúttlegt!

Baldur Tumi vildi ólmur fá sopa af sódavatni hjá pabba sínum. Við gerðum ráð fyrir því að honum þætti gosið alveg skelfilegt (María og Hugi gátu ekki drukkið gos fyrr en þau voru 7 ára!) en ákváðum að leyfa honum að prófa fyrst hann var svona ákafur. En honum fannst þetta alveg æðislegt og hefur æ síðan misst sig af spenningi ef hann sér okkur með sódavatn í glasi og gæti svolgrað slíkar veigar í sig í lítravís ef hann fengi. Svolítið merkilegt í ljósi þess að honum finnst mjólk frekar glötuð og vildi ekki sjá ylvolgt og heimalagað perusaft sem ég bauð honum upp á um daginn! Perusaftið var reyndar svo gott að ég drakk það bara sjálf!

Tveir með sömu hárgreiðsluna!

Bláskjár.

Lífið á Konsulentvägne hefur tekið stakkaskiptum eftir að við föttuðum upp á því að hafa ofan af fyrir Baldri Tuma með dótinu úr eldhússkúffunum.

Ég náði þessari dásamlegu mynd af bræðrunum einn daginn án þess að þeir yrðu mín varir! Þvílíkur kærleikur!

Þeir voru svo sætir að ég lét þá stilla sér aðeins upp fyrir mig líka! Huga leist þó ekkert á meðferðina sem hann fékk frá litla bróður. Það gekk líka ekkert allt of vel á halda á þessum iðandi ormi til að byrja með.

Horfumst við í augu grámyglur tvær ...

En svo kom þetta allt saman. Dásamlegu drengirnir mínir.

Eru þeir sætastir eða hvað?!

Á meðan bræðurnir létu mynda sig kom stóra systir heim eftir skíðadag í skólanum.

Baldur Tumi bakar! Að vísu með mömmu.

Bakaradrengur í góðu skapi!

Við fengum ótrúlega girnilega Cupcakes bók í jólagjöf frá Evu og Gunna og ákváðum að prófa grunnuppskriftina. Ég veit að Eva hafði mikla trú á mér í þessum efnum en hugsa nú að hún verði pínulítið vonsvikin að sjá afraksturinn, þær eru alla vega ekkert eins og þessar í bókinni! En fínar samt - og góðar!

Annars lítur allt vel út í gegnum linsu nýju myndavélarinnar. Ég tala nú ekki um ef það eru túlípanar í bakgrunninum!

Bakaradrengurinn var hins vegar fjarri góðu gamni þegar kom að því að borða afraksturinn. Hér sést í nebbann hans úti í snjónum.

Við hin gerðum kökunum góð skil.

Hádegismaturinn snæddur við undirleik litla trommarans. Svolítið eins og að vera í her eða eitthvað!

Hann gæti líka verið efnilegur stjórnandi ekki satt?