Afmæli Einars

Einar varð 37 ára þann 5. desember og var því fagnað daglangt hér á Konsulentvägen.

Hátíðarmorgunverður. Að þessu sinni var pönnukökunum skipt út fyrir eplaskífur.

Afmælisbarnið íklætt afmælisgjöf frá því fyrir tveimur árum síðan. Sloppurinn gengur nú ævinlega undir heitinu „pelsinn“ eða „feldurinn“. Árrisulir náttúruunnendur geta mögulega séð undarlega bjarnartegund með bláleitan feld hlaupa milli hússins að Konsuelntvägen 2B og póstkassans að ná í blaðið eldsnemma á köldum vetrarmorgnum!

Baldur Tumi varr ánægður með eplaskífurnar og sleikir flórsykur af fingrum.

María tilbúin að fagna pabba.

Og hér er næsta afmælisbarn fjölskyldunnar, Hugi verður 9 ára (vá!!!) þann 7. janúar.

Einar fékk nokkra pakka þennan morgun, þar á meðal einn risastóran sem vakti mikla eftirvæntingu.

Undan pappírnum birtist undarlega þríhyrndur kassi ...

... og upp úr honum kom þessi ægilega fíni gítar!!!

Baldur Tumi var frekar æstur yfir gítarnum og gaf þumalinn upp eins og sjá má!

Afmælisbarnið byrjaði auðvitað strax að æfa sig (íklæddur glænýjum afmælisnáttfötum).

Eftir morgun- og hádegisverð var haldið með snjóþoturnar í Hammarskogen.

María passar að hjálmurinn sitji vel á höfðinu áður en hún skellir sér í brekkuna.

Baldur Tumi svaf hins vegar allt af sér eins og svo oft áður.

Lagt í hann.

Á fleygiferð niður brekkuna.

Afmælisbarnið ber aldurinn betur en hún Grýla konan hans!

María sest niður til að njóta veitinganna, Hugi nálgast úr fjarska.

Afmælisbarnið með vott af brjálæðisglampa í augum ... sennilega bara svona spenntur að komast í lussebullað.

Huga var heitt eftir allan hamaganginn og dreif sig úr úlpunni enda í óskaplega fallegri og hlýrri peysu prjónaðri af ömmu Imbu innanundir.

Ica Maxi sá okkur fyrir veitingum þennan dag en kaffið og kakóið var heimabruggað.

Jólatré í ljósaskiptunum.

Er þetta ekki næstum eins og luktin í Narníu?

Heima kúrðum við aðeins fyrir framan arineldinn og við María vorum svo heppnar að Baldur Tumi nennti aðeins að knúsa okkur.

Svo var það afmæliskakan! Ég mátti til með að prófa hugmynd sem ég fékk um daginn að lítilli flagglínu til að setja á kökur. Finnst ykkur þetta ekki fínt og festlegt? Þessi hugmynd fer beinustu leið í hugmyndabankann fyrir föndurbókina mína sem ég ætla mér alltaf að gefa út einhvern tímann í framtíðinni!

Í flagglínuna þarf tvo einnota grillpinna, smá spotta, lím (stifti eða fljótandi, skiptir ekki máli) og litla ræmu af fallegum gjafapappír, kannski 10 x 25 cm stóra. Brjótið ræmuna saman eftir lengdinni og klippið út litla þríhyrningana í gegnum bæði lögin af pappírnum þannig að samanbrotna hliðin myndi stuttu hliðina ( í rauninni eruð þið sem sagt að klippa út litla ílanga tígla). Ef maður vill vanda sig gerir maður fyrst þríhyrning úr venjulegum pappír sem maður notar svo sem skapalón fyrir hina en ég gerði þetta nú bara fríhendis, það er nefnilega bara krúttlegra að þetta sé ekki hnífjafnt! Næst límið þið tvöföldu þríhyrningana utan um spottann með reglulegu millibili. Síðan bindið þið endana í grillpinnana og stingið þeim í kökuna ... et voilà!

Hugi er alltaf fyrstur til borðs af okkur í fjölskyldunni!

Tortímandinn sá sér leik á borði og reyndi að laumast upp á stól.

Hann var hins vegar stöðvaður af stóra bróður áður en hann náði að gera mikinn skaða á veisluföngunum, bara eitt lítið puttafar í kökuna!

Húsið okkar lenti sem betur fer ekki í aurskriðu akkúrat þegar þessi mynd var tekin, sennilega hefur hún bara orðið svona skökk þar sem ljósmyndarinn gat ekki beðið eftir að komast í kökuna! Og góð var hún, eins og alltaf!

Húrra fyrir Einari afmælisdreng, hann lengi lifi!