Aðventukrans

og fyrsti sunnudagur í aðventu 2011

Hér á Konsulentvägen var allt með hefðbundnum hætti í kringum fyrsta aðventusunnudaginn. Við Einar vorum fram á nótt að útbúa kransinn, sötruðum jólabjór og hlustum á jólaóratóríuna á meðan og svo borðuðum við eplaskífur og kveiktum á fyrsta kertinu öll saman daginn eftir.

Kransagerð að hefjast seint á laugardagskvöldi. Það er óskiljanlegt af hverju við erum alltaf svona seint á ferðinni!

Allt í rusli og kransinn lofar ekkert sérstaklega góðu! En það gerir hann reyndar aldrei á þessum tímapunkti svo við Einar erum löngu búin að læra að halda ró okkar.

Einar klippir niður greinar eins og vindurinn.

Ef ekki væri fyrir jólabjórinn myndum við sennilega missa vitið!

Í kringum miðnættið var kransinn sjálfur tilbúinn en þá var alveg eftir að ákveða hvaða skraut ætti að vera á honum! Eftir smávegis mátun og yfirvegun ákváðum við að brjóta pappírssjörnur til að punta hann með. Það er svo ágætt að eiga orðið ágætan lager af alls konar pappír, borðum og böndum því þá þarf engar stórkostlegar búðarferðir þegar á að föndra. Þarna gátum við til dæmis gripið fínan gjafapappír úr körfunni minni, skorið niður í ræmur og hafist handa. Við brutum 14 stjörnur og það tekur sirka 10-15 mínútur að búa hverja til (fyrir utan vinnuna við að skera niður pappírsræmurnar og festa stjörnurnar á kransinn). Þið getið því reiknað sirka klukkan hvað við fórum að sofa. Sjálf vil ég sem minnst um það hugsa!

En kransinn varð fínn og stóð tilbúinn á borðinu þegar við komum niður (eftir allt of stutta nótt) morguninn eftir.

Það var Einar snillingur sem fékk þá hugmynd að festa stjörnurnar með títuprjónum. Við vorum nefnilega búin að brjóta heilann um það allan tímann meðan við brutum stjörnurnar og upphugsa alls kyns mun flóknari og tímafrekari lausnir áður en Einar datt niður á þessa.

Ég er mun ánægðari með kransinn núna en ég var þegar ég fór að sofa þarna um nóttina!

Ég er með brjálað stjörnuæði þessa dagana og var til að mynda með hugmyndir um að setja stjörnulaga jólakúlur á kransinn í stað pappírsstjarnanna og eins datt mér í hug að búa til litlar stjörnur úr niðurklipptum runnagreinum (sú tilraun endaði reyndar á forsíðunni og lítur dálítið út eins og stjarna með sjúkraumbúðir!). Svona þegar ég hugsa út í það þá var ég ekki með neina hugmynd að skrauti þetta árið sem ekki tengdist stjörnum neitt!

Og svo var dúkað upp með musselmalet í tilefni dagsins. Ég á enn eftir að gera musselmalet vörutalningu hér á síðunni, taka myndir af öllu sem ég á og sýna ykkur. Reyndar grunar mig að engum þætti svoleiðis færsla neitt sérstaklega skemmtileg nema mér ... en þar sem þetta er nú mín síða læt alveg örugglega verða af því einhvern daginn!

Þetta fat er eitt af musselmalet gersemunum mínum. Þetta er eini hluturinn sem ég á með svo kallaðri heilblúndu, þar sem blúndukanturinn er opinn. Yfirleitt finnst mér það dót allt of íburðamikið og kellingalegt en þetta fat finnst mér hreinasta dásemd. Og eplaskífurnar - þær eru líka hreinasta dásemd!

Við kveikjum einu kerti á ...

Baldur Tumi var ekki hress með þetta! Hann var svo móðgaður yfir að fá ekki að þurrka sjálfur upp mjólk sem hann hellti niður að hann tók netta öskursyrpu í upphafi borðhaldsins. Hér eru öskrin í rénum en ef vel er að gætt má sjá tár á hvarmi.

Við hin erum orðin alveg ágæt í því að leiða hjá okkur svona gargmaraþon og héldum bara áfram að borða og dást að musselmaletinu.

María var eldhress ...

og Hugi auðvitað líka.

         

Og smám saman tók Baldur Tumi gleði sína á ný og uppgötvaði þá hve undursamleg guðafæða eplaskífur eru!

Og ég drakk kaffi úr einum musselmaletbollanum sem ég keypti í Kaupmannahöfn í sumar (og stressaði mig á því hvernig í ósköpunum ég ætti eiginlega að hafa jólaútlitið á síðunni minni!).