Aðventukransinn 2008

og fyrsti sunnudagur í aðventu

Venju samkvæmt var aðventukrans fjölskyldunnar föndraður aðfaranótt fyrsta sunnudags í aðventu. Ég held reyndar að við höfum verið einstaklega seint á ferðinni í ár, vorum að byrja eftir miðnætti og fórum ekki að sofa fyrr en hálfþrjú. Eitthvað erum við hjúin nú orðin of gömul fyrir svona vökur!

Í þetta sinn vorum við með þrjár gerðir af greni og laufi á kransinum og þótti það koma sérdeilis vel út.

Kransinn fullhnýttur og Einar farinn að huga að tæknilegum útfærslum kertafestinganna. Grillpinnarnir komu sterkir inn eins og oft áður en í ár brydduðum við einnig upp á því að nota kennaratyggjó! Neyðin kennir naktri ...

Lúsíuljósið mitt heittelskaða fór upp þetta sama kvöld, aðventustjörnurnar í kvistglugganum líka og svo er húsið orðið fullt af amaryllisum og hyacintum.

Í ár keypti ég greinar með bláum berjum á til að skreyta kransinn en þegar til kastanna kom reif ég þær allar af aftur því mér fannst hann fallegri bara svona grænn, með fínu rauðu flauelisborðunum og hjartatölunum!

Spádómskertið!

Á fyrsta kertinu var þó ekki hægt að kveikja strax um morguninn því María þurfti að syngja í messu með barnakórnum í Ålandskyrka eins og fyrir ári síðan. Ålandskyrka er pínulítil og sæt og þar er einstaklega notalegt andrúmsloft. Í ár var boðið upp á „fika“ og margir fengu sér bita áður en messan byrjaði og sátu svo bara og sötruðu kaffi eða gæddu sér á piparkökum undir predikuninni! Afar heimilislegt allt saman. Jósef var á sínum stað og líkt og fyrir ári síðan var hann enn jafnhugsandi yfir stöðunni!

Fallega og duglega kórstúlkan okkar sem söng af hjartans lyst er þarna lengst til vinstri.

Kórinn söng í glænýjum kyrtlum í fyrsta sinn en Maríu finnst klæðskerin heldur hafa misreiknað sig með ermavíddina!

Vi tänder det första ljuset ...

Þegar heim var komið steikti heimilisfaðirinn eplaskífur og svo settumst við saman við borðstofuborðið, gæddum okkur á góðgætinu ...

... kveiktum á fyrsta kertinu og sungum „Við kveikjum einu kerti á“ saman.

Ó elskaða aðventa, vertu sem lengst að líða!

 

Aðventukransinn 2007

Aðventukransinn 2006

Aðventukransinn 2005

Aðventukransinn 2004

Aðventukransinn 2003