Að vökva afleggjara

Afleggjararnir okkar Einars, María og Hugi, vilja, eins og allir aðrir afleggjarar, láta vökva sig af og til. Þau systkinin kjósa þó ólíkar aðferðir, annað vill helst láta vatnið renna á sig að ofan, hitt er best vökvað með niðurdýfingu!

    

María elskar rigningu! Um leið og fyrstu regndroparnir bylja á þaki og gluggum heyrist hrópað einhvers staðar í húsinu: „Ég ætla út!“ Í kjölfarið dressar hún sig upp í pollagalla og stígvél og hleypur út til að ... ja, við vitum eiginlega ekki alveg hvað hún gerir úti í rigningunni einfaldlega af því að við vitum yfirleitt ekkert af henni fyrr en hún kemur inn um það bil tveimur tímum seinna. Einn daginn í síðustu viku rigndi ógnarmikið og þá sat hún ein við drullukökugerð í langan tíma. Hugi kann hins vegar ekkert sérstaklega vel við rigninguna og slæst ekki í för með stóru systur fyrr en henni er farið að slota.

Buslulauginn sem verið hafði athvarf barnanna aðeins nokkrum dögum áður var nú heldur óhrjáleg að líta. Gömul lauf höfðu sokkið til botns og á yfirborðinu sem regnið gáraði svona hressilega flutu nokkrar dauðar flugur. Dálítið sorglegt en um leið dálítið fallegt!

Um leið og stytti upp var Hugi kominn út líka og þau systkinin tóku til við sniglasöfnun. Alls fundu þau sex snigla sem svo voru gefin nöfn og fluttir yfir í sandkassann þar sem börnin fylgdust með atferli þeirra. Hér er Skarri hans Huga á fleygiferð og Findus hennar Maríu í baksýn.

Findus í nærmynd. Mér finnast sniglar svo ótrúlega krúttlegir en ég geri mér vel grein fyrir því að sennilega muni hrollur hríslast niður bakið á ýmsum lesendum við þessar myndir! Haldið út, þær eru ekkert mjög margar!!!

Hér eru Plitt og Plutt hennar Maríu á hraðferð fram hjá Ingólfi litla hans Huga. Er ekki Ingólfur snilldarlegt nafn á snigli? Það þykir mér!!!

Krúsídúllurnar Plitt og Plutt komin langt fram úr Ingólfi sem jafnvel var talinn af á þessum tímapunkti. Skömmu seinna var hann hins vegar horfinn sporlaust og þar með var ljóst að allar fréttir af andláti hans voru stórlega ýktar!

Daginn eftir hafði ekki einungis stytt upp heldur skein sólin skært og hitamælirinn sýndi um það bil 25°. Síðdegis ákváðum við fjölskyldan því að fara í dálitla vettvangsferð og kanna hvort við gætum fundið baðstað hér í nágrenninu sem Einari hafði verið bent á fyrir nokkru síðan. Minnug hörmunganna úr Fiby urskog vorum við síður en svo bjartsýn, tókum ekki einu sinni með okkur sundföt enda fannst okkur töluvert líklegt að við annað hvort fyndum ekki staðinn eða þá að við kæmumst ekki niður að vatninu fyrir sefi og bítandi flugum! Okkur að óvörum fundum við baðstaðinn hins vegar strax og þegar við stigum út úr bílnum kom auðvitað í ljós að Tenabadet var sannkölluð paradís!

Hugi kann ekkert sérstaklega vel að meta vatnsflaum að ofan. Honum líkar fremur illa við mikla rigningu og hann bókstaflega hatar að láta skola á sér hárið í baðinu! En að dýfa sér í kaldan sjó eða taka sundsprett í litlu skógarvatni það er vatnssull að hans skapi! Þrátt fyrir sundfataleysið lét hann ekkert stöðva sig og það var með herkjum að okkur tókst að halda honum í nærbuxunum áður en hann stökk af stað út í vatnið. (Æ, það voru engin önnur berrössuð börn þarna þannig að við kunnum ekki við annað!)

Tveir alveg eins!!! Einar prófar vatnið með Huga.

Þeir feðgarnir dóluðu sér nokkrar ferðir upp úr og ofan í vatnið meðan við mæðgurnar sátum í grasinu og fylgdumst með mannlífinu sem var töluvert þegar okkur bar þar að garði.

Maríu leist ekkert allt of vel á þetta í upphafi. Henni þóttu jú vatnið dálítið spennandi en fannst óþægilegt að hafa engin sundföt og var eitthvað feimin við að fara sömu leið og litli bróðir. Hér er hún að velta vöngum yfir stöðunni.

Þetta fiðrildi virtist líka vera að velta vöngum yfir einhverju merkilegu þar sem það sólaði sig í sandinum við vatnið.

Að lokum lét ungfrúin góða þó alla feimni lönd og leið, dreif sig úr sumarkjólnum og skellti sér út í notalegt vatnið til Huga.

Systkinin byrjuðu á að hoppa dálítið í grynningunum.

    

Hugi varð mjög fljótt alveg trylltur af hamingju! Miðað við hvað honum er meinilla við vatn í sumum tilvikum þá skil ég ekki í því hvað hann getur verið brjálæðislega hrifinn af því í öðrum. Nokkrum mínútum eftir að þessar myndir voru teknar var hann til dæmis farinn að öskra alveg stjórnlaust af kæti úti í miðju vatninu. Ég sá fyrir mér að fljótlega myndu aðrir baðgestir fara að kasta til hans björgunarhringjum eða rífa undir hökuna á honum og fara að troða marvaða með hann í land ef fram héldi sem horfði og varð því að eiga alvarlegan orðstað við þennan brjálaða nærbuxnakall!

Það er mikið gaman að hlaupa út í vatnið með gusugangi og skvettum. Einar sést þarna í baksýn undir trénu að gæta taskna, fatnaðar og nestis.

     

Ég var ekkert að ýkja þegar ég sagði að hann hefði orðið trylltur af hamingju! Ég væri rík kona ef ég gæti einhvern veginn virkjað drenginn þegar hann er í svona ham, tappað þessari orku á flöskur og selt þær öllum sem þyrftu á örlítilli hressingu að halda!

Rúsína á svamli.

María er öllu rólegri og mun varkárari en Hugi þegar að svona sundferðum kemur. Þegar þessi mynd var tekin var hún til dæmis á leiðinni að sækja litla bróður sinn sem var kominn næstum alla leið út að krúttlega flekanum sem vaggar rétt utan við ströndina og þjónar bæði sem sól- og stökkpallur fyrir baðgesti.

María og Hugi voru tvö í heiminum!

Þar sem við höfðum komið seint að Tenabadet voru flestir baðgestanna farnir að tygja sig heim þegar okkur bar að garði. Tæpum klukkutíma síðar voru systkinin orðin ein eftir í vatninu! (Ég elska þessa mynd!)

Þótt við værum seint á ferð var nú ekki orðið alveg jafndimmt og lítur út fyrir að vera á þessum myndum. Þær eru bara teknar beint á móti sólinni (sem reyndar var komin bak við ský akkúrat þarna) og því aðeins of dökkar.

Það var með herkjum að við náðum börnunum upp úr en loforð um nýbakaða sykurköku á bakkanum og aðra heimsókn í Tenabadet um leið og tækifæri gæfist höfðu þó tilætluð áhrif.

Hugi var búinn að spóla sig upp í svo mikinn æsing og ákafa að þegar hann tók við kökusneiðinni úr hendi föður síns gerði hann tilraun til að troða henni í heilu lagi upp í munninn! Hann ætlaði sumsé að taka kökuáti með sama áhlaupi og vatnið!

Þetta þótti okkur öllum ógnarfyndið!!!

Við Einar fengum okkur kaffisopa þarna við vatnið áður en haldið var heim og það verður ekki annað sagt en að við hlökkum alveg jafnmikið og börnin til að koma aftur að Tenabadet og þá með sundföt fyrir alla með í för, handklæði, armkúta, svaladrykki og hvað eina sem svona baðferðum fylgir!