Á Skansen

Við skelltum okkur á Skansen í ágúst enda orðið allt of langt síðan við höfum komið þangað. Við vorum reyndar svo óheppin að það var akkúrat einhver Nickelodeondagur í garðinum þegar við vorum þar svo við hlustuðum á óminn af Önnu Bergendahl meða við skoðuðum elgina og sáum svo Darin og Svampi Sveins bregða fyrir á leiðinni út.

Hvað skyldi fanga svona athygli Baldurs Tuma og Maríu?

Jú auðvitað hin stórskemmtilegu villisvín!

Baldur Tumi var svo spenntur yfir svínunum að ég hélt að við kæmumst kannski ekkert lengra inn í garðinn. Og María var svo góð að nenna endalaust að halda á honum svo hann gæti skoðað þau.

Við skemmtum okkur öll vel yfir því hvað Baldur Tumi skemmti sér vel yfir svínunum!

Loks fékkst hann þó af stað aftur og stikaði stórmannlega eftir stígnum, eins og sjá má.

Baldur Tumi var ekki borinn á háhest af því að hann væri þreyttur á að labba, nei, það vorum við sem vorum þreytt á að þurfa að hlaupa á eftir honum!

Feðgar.

Næsti viðkomustaður var Lill-Skansen. Hér erum við að skoða kanínurnar.

  

Þessi bræddi mig algjörlega, með eitt eyra upp og eitt niður.

Svo fórum við að klappa geitunum. Það var algjörlega stórkostlegt að fylgjast með Baldri Tuma. Ég hafði fyrirfram ímyndað mér að hann yrði ótrúlega æstur og ef hann kæmist í návígi við geit myndi hann ekkert ráða við sig og bara slá í þær og rífa. En það var öðru nær. Hann var ótrúlega rólegur, yfirvegaður og áhugasamur og við sáum alveg nokkrum sinnum að geiturnar komu bara beint til hans og stilltu sér upp beint fyrir framan hann. Svo stóðu þau hvort á móti öðru, horfðust í augu og komu fram hvort við annað af svo ótrúlegri virðingu að við erum núna alveg viss um að Baldur Tumi hafi verið góður geitahirðir í fyrra lífi!!!

Respect!

         

Við lentum í rosalegustu rigningu sem við höfum nokkurn tímann vitað! Það var hreinlega eins og sprengja hefði fallið á Skansen! Maður sá bara rigninguna nálgast og fólk öskraði og hljóp af stað til að leita sér skjóls undir trjám og þakskyggnum! Hún varði ekki nema í örfáar mínútur en við vorum öll gegnblaut eftir þetta.

Eftir rigninguna vorum við ekki bara blaut og hrakin heldur líka orðin glorhungruð. Við drifum okkur því inn á veitingastað og pöntuðum kjötbollur, strömming og pönnuköku. Hugi vílar ekkert fyrir sér að borða strömming eða neinn annan fisk og gleður það móður hans, fiskihatarann, mjög!

Baldur Tumi fékk bara rúsínur.

María með vondu pönnukökuna.

Grísirnir þrír.

Æ, ég fer alltaf að hlæja þegar ég sé þessa mynd sem Einar tók af börnunum. Mér skilst að Hugi hafi ætlað að vera sérstaklega krúttlegur á henni!!!

Næst héldum við í Skansen Akvariet en þangað höfum við aldrei komið áður. Við byrjuðum á Lemúrafjallinu.

Lemúrarnir voru alveg óhræddir við gestina sem heimsóttu þá en trylltust hins vegar úr hræðslu þegar leifar af Nickelodeon deginum í formi Dora the Explorer blöðru komu svífandi yfir fjallið þeirra. Þeir hafa sjálfsagt haldið að þarna væri kominn stór ránfugl sem ætlaði að éta þá því þeir tóku að öskra hver í kapp við annan, stukku í allar áttir og grættu lítil börn!

Baldur Tumi var nú fljótur að jafna sig en ég held að ég geti fullyrt að hann hafi aldrei á ævi sinni orðið jafnhræddur og ég vorkenndi honum hræðilega og skammaðist mín fyrir að vera að útsetja hann fyrir svona uppákomum.

Þá voru nú þessar dúllur skárri!

Surikat-ungar gægjast út úr felustaðnum sínum.

Eftir skemmtilega ferð í gegnum Skansen Akvariet þar sem við skoðuðum slöngur, fiska, froska, krókódíla, skjaldbökur og kóngulær enduðum við í Klapp och Kram hörnan þar sem maður má knúsa slöngur og kóngulær! Þetta var algjörlega draumastaður Maríu sem segir að einmitt þessi dýr séu uppáhalds. Ég er búin að tilkynna henni að ef hún ætli að eiga slöngu þegar hún verði flutt að heiman þá komi ég ekki í heimsókn, mér finnast slöngur alveg ógeðslegustu dýr í heimi! Kóngulær eru í lagi, alla vega ef þær eru inni í búrum. Hér er María að klappa slöngunni Snoddas. Merkilegt nokk þorði ég líka að klappa Snoddas og held að það hafi nú ef eitthvað er eytt pínupons af slönguhræðslunni. Þær eru nefnilega ekki slímugar eins og ég hélt heldur harðar og þurrar. Hugi þorði líka að klappa slöngunni en hvorki mín né hans hetjudáð var fest á filmu.

María var hins vegar sú eina sem hélt á kóngulónni Imse. Henni fannst þetta algjörlega toppurinn á lífi sínu hingað til! Öfugt við það sem ég hafði haldið var kóngulóin hins vegar slímug, eða klístraði sig alla vega fasta við lófann svo það þurfti að beita lagni við að lyfta henni upp.

Eftir svona upplifanir verður maður auðvitað að fá sér ís! (Samt bara eftir að búið er að spritta hendurnar!)

Og með þessum hressa ís lýkur albúminu enda vel við hæfi eftir svona skemmtilegan dag.