9 ára afmæli Huga

Þann 7. janúar varð stóri strákurinn okkar níu ára! Dagurinn var með hefðbundnu sniði, morgunkaffi og pakkar, afmæliskaka og hátíðarkvöldverður að vali afmælisbarnsins.

Morgunkaffi með pönnukökum, kertaljósum, túlípönum og stírum í augum. Hér í Svíþjóð er enn jólafrí í skólum þegar Hugi á afmæli svo það er bara Einar sem þarf að fara snemma af stað en þar sem við viljum jú fagna deginum öll saman þurfa allir að drífa sig á fætur klukkan sjö. En svo er ósköp notalegt að geta fagnað deginum á náttfötunum í framhaldinu!

Afmælisdrengurinn spenntur og glaður.

Upp úr fyrsta pakkanum kom þessi fína innibandýkylfa sem amma Imba hafði pukrast með heim úr bænum meðan hún var í heimsókn hjá okkur.

Kylfunni var þó snarlega rænt af öðrum áhugasömum innibandýspilara!

Dásamlegur níu ára drengur!

Og dásamlegur nítján mánaða drengur!

Stóra systir, að sjálfsögðu dásamleg líka en passar ekki inn í níu þemað!

Þessa skemmtilegu bók fékk Hugi frá vinum sínum Ástþóri Erni og Arnaldi Kára. Hann las hana alla sjálfur á nokkrum vikum, 327 síður, takk fyrir! Nú bíðum við spennt eftir myndinni sem okkur skilst að eigi að koma út í haust.

Frá ömmu Imbu fékk hann líka þessa þætti sem við foreldrarnir munum vel eftir.

                       

Mest var þó spennandi að opna stóra pakkann frá mömmu, pabba, Maríu og Baldri Tuma ...

... sem var glæsilegur gítar sem drengurinn er búinn að vera mjög duglegur að æfa sig á. „Signir sól“ er í uppáhaldi þessa dagana!

Svo fékk hann líka smá í Harry Potter safnið.

Svo bökuðum við afmælisköku. Hugi vildi fá skúffuköku og var sú ósk að sjálfsögðu uppfyllt. Litli brjálæðingurinn var dálítið spenntur að pota í kremið!

Hugi skreytti kökuna sjálfur og skrifaði „Happy Birthday“ á hana.

María var fjarri góðu gamni á innibandýleik þegar kakan var skorin en við hin fengum að njóta hennar með afmælisbarninu.

Og í kvöldmat á sjálfan afmælisdaginn valdi hann að fá grjónagraut og heimabakaðar flatkökur. Heldur betur veislumatur!

„En mamma, er ÉG samt ekki aðal þótt stóri bróðir eigi afmæli?!!“