Helgin 5.-6. júní

Frábær helgi að baki hjá Bárugötuliðum! Á laugardeginum kepptist húsmóðirin við ritgerðarskrif en þeim lauk sem betur fer um miðjan næsta dag. Við gátum því notið veðurblíðunnar og alls þess sem borgin hefur upp á að bjóða á góðum degi!

María og Hugi, glaðbeitt á leið í háttinn að kvöldi laugardagsins 5. júní. María óskaði sjálf eftir smá myndatöku og þau stilltu sér upp alveg án aðstoðar í sófanum með sængina breidda yfir sig!

Upp úr hádegi sunnudaginn 6. júní var haldið í Grasagarðinn í Laugardal til að fagna langþráðu sumarfríi húsmóðurinnar! Maríu og Huga fannst alveg frábært að spretta aðeins úr spori í blíðunni!

Hver er að trampa á brúnni minni?!! Systkinunum fannst alveg ótrúlega skemmtilegt að hanga þarna og horfa á endur og gæsir synda í vatninu fyrir neðan!

María og pabbi ... Hugi rokinn í burt til að elta gæsirnar!

Þarna erum við mæðgurnar, sælar og glaðar með síðustu ritgerðarskilin. Þeim Maríu og Huga finnst það alveg fáránleg iðja að sitja við tölvuna að skrifa ritgerðir daginn út og daginn inn þegar það er hægt að vera í alls kyns prinsessuleikjum eða að púsla!

Og enn er trampað á brúnni!

Hugi og María að hrella gæsirnar! Þau hlupu á eftir þeim og söngluðu hástöfum: Kvak, kvak, kvak! Gæsunum fannst þetta ekki eins skemmtilegt og þeim en höfðu þó vit á að forða sér út á vatnið. Hugi var reyndar ansi oft nálægt því að skella sér bara út í á eftir þeim ... en atvikið í sumarbústaðnum hefur honum kannski verið í of fersku minni til að hann léti vaða!!!

Það voru fleiri foreldrar að spóka sig með ungana sína í Grasagarðinum! Takið eftir litlu dúllunni fremst sem er að klóra sér!

Eitthvað gekk okkur nú illa að finna Kaffi Flóru en það hafðist á endanum eftir heillangt labb í þveröfuga átt! Það passaði mátulega að sólin braust út úr skýjunum á sama tíma og við gátum því sleikt sólina (og út um!) meðan við biðum eftir veitingunum.

Feðgarnir með ís!

Mæðgurnar með pilsner ... æ, nei það vorum víst við foreldrarnir sem áttum hann ...

... og raunar líka þetta ægifagra kjúklingasalat!

Hvaða staður er betri til blómamyndatöku en einmitt Grasagarðurinn?! Ferðin var því óspart nýtt í þeim tilgangi líka!

Lítill fugl á laufgum teigi ...(hvað kemur aftur svo ... losar svefn og sperrir stél ... ?)

Þetta finnst húsmóðurinni á Bárugötu sætasta mynd sem hún hefur nokkru sinni tekið!

Systkinin nutu þess að hlaupa um í grasinu og eftir öllum litlu stígum garðsins. Það var reyndar töluvert rætt um að tína eitthvað af þessum fallegu blómum sem þar voru en foreldrarnir þvertóku fyrir að það væri leyfilegt!

Hugi hlaupinn á undan okkur hinum!

María og Hugi rannsaka túlípanabreiðurnar frá bekknum.

Hugi teygir úr sér í grasinu ...

... og við mæðgurnar líka!

Einar lét sig ekki muna um að vippa báðum börnunum á hestbak. Hann stóð því fullkomlega undir titlinum „Pabbi sterki“ sem loðað hefur við hann!

Eftir Grasagarðinn var haldið niður að höfn hvar Hátíð hafsins stóð yfir! Þar vildu systkinin ólm prófa hoppikastala. Hér er Hugi á fljúgandi ferð!

María (sem reyndar vill láta kalla sig Bertu prinsessu eða Lísu kóngsdóttur þessa dagana) í lausu lofti!

Flott greiðsla!!!

Við vonum svo sannarlega að við fáum jafngott veður í júlí þegar sumarfríið byrjar fyrir alvöru. Þá verða allir dagar eins og þessi helgi!