Þriggja ára afmælisveisla Huga

Enn einu sinni stóðu foreldrarnir sig ekki nógu vel í stykkinu og héldu ekki upp á afmæli Huga fyrr en mörgum vikum eftir að dagurinn sjálfur var um garð genginn. En betra er seint en aldrei og það sannaðist svo um munaði í þessu tilviki, enda afmælisveislan einstaklega vel heppnuð!

Jódís frænka sá um afmæliskökuna eins og undanfarin ár. Í þetta sinn fékk Hugi sjóræningjaskipsköku ... og var sú ekki lítið glæsileg!

Allt á kökunni var ætt ... nema pinnarnir sem héldu seglunum uppi! Það verður erfitt að toppa þessa köku næst ... en María er búin að panta kökusundlaug fyrir sitt afmæli!

Smáatriðin voru í fyrirrúmi! Hér sést hvernig sjóræningjatrítill rekur annan út plankann. Og mér sýnist einhver mara þarna í hálfu kafi fyrir neðan. Höfrungar stukku upp úr sjónum í kringum skipið og um borð var bæði fjársjóðskista með gulli í og fallbyssa. Á eyju rétt við skipið bjó svo grimmur krókódíll sem hafði gert sér lítið fyrir og étið einn trítilinn!

Gestgjafinn vildi ólmur fá að skenkja kökur ... við litlar vinsældir yfirbakarans móður sinnar!

Í síðustu afmælisveislu fór Hugi allur hjá sér þegar afmælissöngurinn var sunginn en ekki þetta árið enda er maður orðinn töluvert fullorðnari. Honum fannst þetta ótrúlegt stuð og fagnaði manna mest að söng loknum!

Svo þurfti að blása á kertin!

Afmælisborðið. Þar sem bolludagur var skammt undan kom bolluþemað sterkt inn og bakaðar bæði brauðbollur og vatsdeigsbollur með rjóma og sultu!

Stelpurnar, Harpa, Högna, María og Kristín Klara, komu sér fyrir við annan enda borðsins ...

... og létu strákana, Emil og Hrapp, lítið á sig fá!

Amma Imba og Jódís bakarameistari ræddu málin!

Bjartur sæti frændi kom líka í heimsókn til okkar og hafði dregið pabba sinn með sér!

Og Eva og Pála létu sig ekki heldur vanta!